„Það er engu hægt að svara“

Frá Hóteli KEA á Akureyri.
Frá Hóteli KEA á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er nú farinn að þyngjast róðurinn hjá okkur. En við náum að halda í raun okkar rekstri með skertri þjónustu þessa tvo sólarhringa þar sem við erum ekki komin inn í þennan háannatíma,“ segir Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri KEA Hótela, í samtali við mbl.is um yfirstandandi verkfallsaðgerðir Starfsgreinasambandsins (SGS). Málið vandist hins vegar þegar frekari aðgerðir sem boðaðar hafi verið hefjist.

Vinnustöðvun hófst hjá félagsmönnum SGS á miðnætti í gær og stendur fram á miðnætti annað kvöld. Frekari aðgerðir eru síðan fyrirhugaðar á næstunni náist samningar ekki við atvinnurekendur fyrir þann tíma. Þannig er gert ráð fyrir allsherjar vinnustöðvun allan sólarhringinn 19. og 20. maí hafi ekki verið samið og ótímabundin vinnustöðvun hefst síðan frá miðnætti aðfaranætur 26. maí.

Páll segir stöðuna í dag vera með þeim hætti að hótelin séu ekki fullbókuð fyrstu nótt. Fyrir vikið séu fyrir hendi uppábúin herbergi sem hægt sé að grípa til. „En strax 19. og 20. þá er þetta orðið miklu erfiðara því þá er mikla meira orðið bókað. Þá í rauninn stoppar reksturinn að hluta,“ segir Páll. Spurður hvort farið sé að bera á afbókunum segir hann svo ekki vera. „En ég held að nýir kúnnar séu hins vegar að halda að sér höndum. Þær eru undir áætlunum.“

Páll segir aðspurður að talsvert sé einnig hringt af fólki sem eigi bókuð herbergi lengra fram í tímann og spurt um stöðuna. „Það er engu hægt að svara hreinlega. Nema ef það kemur til allsherjarverkfalls til lengri tíma þá stöðvast okkar rekstur mjög fljótt.“ Vísar Páll þar til óvissunnar í kringum kjaraviðræðurnar. Hann leggur þó áherslu á að miðað við núverandi aðstæður fái viðskiptavinir fyrirtækisins þá vöru sem þeir greiði fyrir.

Fréttir mbl.is:

Stefnir í 70.000 manns verkfall

Farþegar hvattir til að fylgjast með

Yfir helmingur starfsfólks í verkfalli

Munu hafa meira en óþægileg áhrif

Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri KEA hótela.
Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri KEA hótela. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert