Voff og mjá á ráðgjafarstofunni

Dagný María Sigurðardóttir.
Dagný María Sigurðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír fjörmiklir ferfætlingar eru húsmóður sinni, Dagnýju Maríu Sigurðardóttur félagsráðgjafa, til aðstoðar í störfum hennar, en hún hefur sérhæft sig í félagsráðgjöf með aðstoð dýra. Þetta eru hundarnir Tinni og Neró og kötturinn Mikki. Þeir félagar hafa ýmislegt fleira fram að færa en einstaka gelt og mjálm því Dagný segir fjölmargar rannsóknir sýna fram á gagnsemi dýra í ýmiss konar meðferð. Þá geti þau gegnt mikilvægu hlutverki við að auka félagsfærni barna.

Félagsráðgjöf með aðstoð dýra eða Animal assisted therapy er að sögn Dagnýjar vaxandi aðferð í ráðgjöf og hefur breiðst út víða um heim. Hún segir að niðurstöður rannsókna sýni fram á ýmsan líkamlegan og andlegan heilsufarslegan ávinning sem hlýst af umgengni við dýr. „Í návist dýra fara ýmis vellíðunarefni af stað í líkamanum; t.d. eykst framleiðsla oxytocins, endorfís og dópamíns, hjartsláttur hægist og blóðþrýstingur lækkar,“ segir Dagný.

Dýrin kenna umhyggju

Hún og aðstoðardýrin þrjú vinna samkvæmt hugrænni atferlismeðferð og 12-sporakerfinu. Skjólstæðingarnir eru m.a. með þunglyndi og kvíða og talsvert er um að börn sem eiga erfitt með samskipti leiti til hennar.

„Fólk tengist mér fyrr sem meðferðaraðila í gegnum dýrin og á auðveldara með að tala um erfiða hluti. Dýrin hafa róandi áhrif,“ segir Dagný. „En þessi meðferð gengur auðvitað ekki upp nema fólk vilji umgangast dýr eða hafi áhuga að vinna á ótta sínum gagnvart dýrum.“

Hún hefur gert rannsóknarverkefni með hóp tíu ára drengja sem áttu fáa félaga og fengu að vera samvistum við dýr. Ávinningurinn var margskonar, m.a. áttu þeir auðveldara með að mynda félagstengsl á eftir. „Krakkar sem eiga erfitt með að sýna umhyggju, og þar eru strákar í meirihluta, læra það með því að umgangast dýrin og yfirfæra það á fólk. Dýrin kalla fram það mjúka í fólki.“

Auk þessa segir hún að dýr gagnist vel við meðferð einhverfs fólks.

Nýjar reglur, sem kveða á um að öryrkjar, sem búa í íbúðum á vegum Öryrkjabandalagsins, þurfi að losa sig við gæludýr sín hafa verið nokkuð í fréttum undanfarið. Dagný segir þetta til marks um hversu aftarlega Íslendingar séu á merinni varðandi gæludýraeign, þó vissulega hafi reglurnar víða verið rýmkaðar undanfarin ár.

„Margt fólk sem býr við félagslega einangrun segir að gæludýrið gefi lífinu tilgang,“ segir Dagný. „Mér finnst alltaf jafn sorglegt þegar ég heyri af því að gömlu fólki sé gert að losa sig við köttinn sinn sem það elskar út af lífinu. Líklega eru fáir sem þurfa jafn mikið á gæludýri að halda og öryrkjar og eldri borgarar. Dýraofnæmi er gjarnan nefnt sem ástæða. Ég hef heyrt tölur um að 3-6% fólks sé með ofnæmi fyrir dýrum – á að skerða lífsgæði allra vegna þeirra? Þetta mætti t.d. leysa með því að leyfa gæludýr í sumum húsum.“

Gleðileg meðferð

Hvers vegna valdirðu að starfa við félagsráðgjöf með aðstoð gæludýra? „Ég hef lengi gert mér grein fyrir því hvaða áhrif dýr hafa á fólk. Ég hafði lesið mér heilmikið til um það þar til ég uppgötvaði að þar var heil fræðigrein á bak við. Dýrin geta gert svo margt fyrir okkur og ég legg áherslu á það í mínum störfum hjá fyrirtækinu mínu sem heitir Get og skal að þó verið sé að vinna með erfið mál og reynslu, þá þarf meðferð ekki að vera dauðans alvara,“ segir Dagný. „Það má vel vera hlátur og gaman. Dýrin kalla fram gleðina.“

Erfitt að sjá á eftir dýrinu

Einn hluti starfs Dagnýjar lýtur að því að aðstoða gæludýraeigendur við að taka ákvörðun um áframhaldandi líf dýra sinna þegar þau eru orðin gömul eða veik. „Spurningin sem fólk stendur frammi fyrir er þessi: á ég að gera allt sem ég get til að lengja líf dýrsins eða stytta það? Ég aðstoða fólk við að taka ákvörðun þannig að velferð dýrsins sé í forgrunni. Þetta er stórt skref og mikilvægt að fá aðstoð við að taka það.“

Dagný segir oft skorta á samúð í garð gæludýraeigenda þegar þeir þurfa að horfa á eftir dýrinu sínu og hún aðstoðar fólk í þeim sporum „Hvaða væl er þetta yfir einum ketti? er stundum sagt við fólk sem hefur misst besta og jafnvel eina vin sinn sem aldrei hefur gert annað en að veita gleði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert