Aðalmeðferð lokið í Kaupþingsmáli

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Aðalmeðferð í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings er nú lokið, en samtals tók hún meira en 130 klukkustundir í réttarsal, eða 22 daga yfir rúmlega mánaðar tímabil.

Í málinu eru níu einstaklingar ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik þar sem saksóknari telur að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða þar sem komið var í veg fyrir eða hægt á lækkun á hlutabréfum í Kaupþingi.

Mbl.is hefur setið öll réttarhöldin, en um er að ræða eitt stærsta mál sinnar tegundar hér á landi, þar sem skýrslutaka yfir ákærðu tók um tvær og hálfa viku, vitnaleiðslur sex daga og málflutningur ákæruvaldsins og verjanda heila viku.

Nú mun dómari leggjast yfir málið, en dómskjöl eru orðin 128 og skjalafjöldi er talinn í tugum þúsunda blaðsíðna, gífurlegum fjölda símtala og myndum úr Kauphallarherminum umtalaða. Dómari skal birta dóm innan fjögurra vikna, en dæmi eru fyrir því að í stórum málum verði einhver frestur þar á. Þó skal hann kveða upp dóm sinn innan átta vikna, annars gæti þurft að endurtaka málið. Það má því búast við dómsuppkvaðningu seinni partinn í júní eða jafnvel í júlí.

Miðað við önnur álíka mál má svo gera ráð fyrir að niðurstöðunni verði áfrýjað til Hæstaréttar, þannig að ólíklegt er að þetta séu formleg lok málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert