Frávísunarkröfu í Stímmáli hafnað

Sá hluti ákærunnar sem verjendur vildu fá vísað frá varðaði …
Sá hluti ákærunnar sem verjendur vildu fá vísað frá varðaði kaup fjárfestingarsjóðs í vörslu Glitnis á skuldabréfum í Saga Capital upp á meira en milljarð króna. Kristinn Ingvarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu verjenda í Stímmálinu svonefnda um að vísa hluta af ákæru frá dómi. Að sögn Hólmsteins Gauta Sigurðssonar, sérstaks saksóknara í málinu, liggur ekki fyrir hvenær næsta fyrirtaka í því fer fram. Tæpir 15 mánuðir eru síðan málið var þingfest.

Frávísunarkrafan var lögð fram 11. maí en verjendur vildu að 3. kafli ákærunnar væri felldur niður. Sá kafli varðar kaup fjárfestingarsjóðs í vörslu Glitnis á skuldabréfum í Saga Capital upp á meira en milljarð króna. Meginástæðuna fyrir frávísun sagði verjandinn vera þá að lögreglan hafi eytt þýðingamiklum símtölum án þess að verjendur hefðu átt þess kost að fara yfir gögnin.

Þeir Lárus Welding, fv. bankastjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fv. framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fv. forstjóri Saga Capital, eru ákærðir í málinu fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við tugmilljarða lánveitingu Glitnis til félagsins Stím.

Hólmsteinn Gauti segir í samtali við mbl.is að næstu skref í málinu ráðist væntanlega þegar það verður næst tekið fyrir. Ekki ligg hins vegar fyrir dagsetning fyrir næstu fyrirtöku þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert