Gagnrýnir vinnubrögð eftirmannsins

Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fyrrverandi menntamálaráðherra kannast ekki við að hugmyndir um þriggja ára framhaldsskóla séu frá þeim tíma sem hann gegndi embættinu eins og fram kemur á vefsíðu flokksins í umfjöllun um ályktun stjórnar allsherjar- og menntamálanefndar hans. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi menntamálaráðherra, í dag en hann var menntamálaráðherra 1995-2002 og þingmaður Sjálfstæðisflokksins 1991-2009.

Fagnað er í ályktuninni að næsta haust muni nær allir framhaldsskólar landsins bjóða þriggja ára námsbraut til stúdentsprófs. Vísað er til þess að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hafi síðasta haust sent skýr fyrirmæli til stjórnenda framhaldsskólanna um að hefja undirbúning að styttingu náms til stúdentsprófs. Björn segir það koma sér „í opna skjöldu“ að hugmyndin um þriggja ára framhaldsskóla sé frá þeim tíma þegar hann hafi verið ráðherra menntamála.

„Ég sannfærðist um að ekki ætti að gefa fyrirmæli eins og þau sem fagnað er í þessari ályktun, þau brytu gegn stefnunni um frjálsræði og sveigjanleika í starfi framhaldsskólans. MH hefur boðið þriggja ára stúdentspróf, Hraðbraut bauð tveggja ára. Fjögurra ára reglan með sveigjanleika var engum til tjóns. Að MR og MA verði settir í þá stöðu að fá hugsanlega að starfa á undanþágu og bjóða fjögurra ára nám er sérkennileg afstaða til þessara góðu skóla. Látið er eins og kjarasamningar kennara ráði því að þessi breyting er nú gerð. Hver eru menntavísinda rökin? Hver ætlar að bjóða aðfararpróf að háskóla þegar ekki gefst tími til að afla nógu margra eininga í framhaldsskólanum? Að leggja meiri áherslu á aldur nemandans en menntun hans lofar ekki endilega góðu um hvað við tekur að loknum framhaldsskóla,“ segir Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert