Sér það skemmtilega í öllu

Þórunn Sunneva Elfarsdóttir varð dúx Fjölbrautarskólans í Breiðholti.
Þórunn Sunneva Elfarsdóttir varð dúx Fjölbrautarskólans í Breiðholti. Mynd/Jóhannes Long

„Ég myndi segja að það sé að tækla hlutina strax og vera ekki að slá þeim á frest og hafa gaman að því sem maður er að gera,“ segir Þórunn Sunneva Elfarsdóttir sem varð dúx Fjölbrautarskólans í Breiðholti á útskriftinni í dag. Þórunn er dóttir þeirra Elfars Loga Hannessonar og Marsibilar Kristjánsdóttur. 

Þórunn var á fata- og textílbraut skólans og hlaut hún við útskriftina verðlaun fyrir íslensku og besta árangurinn á fata- og textílbraut. Að auki fékk hún viðurkenningu frá Soroptimistaklúbbi Hóla og Fella.

Þórunn segir að mikilvægt sé að sjá það skemmtilega í því sem maður er að læra. „Ég lærði að hafa gaman að öllu sem ég lærði. Ég fékk verðlaun fyrir íslensku og textíl en annars var ég með svipaðar einkunnir í öllum fögum.“

Alltaf unnið mikið með skóla

Aðspurð hvað taki nú við segist hún ætla að leggja fyrir sig fatahönnun. „Annað hvort fer ég í Listaháskólann eða fer út að læra. Ég ætla að kíkja á námskeið og búa til flotta portfolio-möppu, það er svo margt spennandi í boði.“

En fyrst tekur hún sér árs frí þar sem hún tekur við verslun sem hún hefur unnið í undanfarin ár. Hún hefur alltaf unnið í 50% vinnu með skóla, sem gerir námsárangur hennar enn athyglisverðari. Hún hefur engan tíma fyrir sumarfrí og hefur strax hafið störf að fullu. „Ég kann ekki að fara í frí. Ég hef alltaf unnið 50% með skóla, ég þekki ekkert annað,“ segir Þórunn.

Hún ber fata- og textílbrautinni í FB vel söguna. „Þetta er frábær braut, lítil og það þekkjast allir. Námið er mjög spennandi og maður fær mikið frelsi til að vera skapandi og gera það sem maður sjálfur vill.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert