Skellt í lás í kvennafangelsinu

Fangelsi hefur verið starfrækt í þessu húsi frá árinu 1989.
Fangelsi hefur verið starfrækt í þessu húsi frá árinu 1989. mbl.is/Eggert

Fangelsinu í Kópavogi, sem hefur oftast verið kallað kvennafangelsið í Kópavogi, hefur verið lokað og heyrir starfsemi þess nú sögunni til. Síðustu fangarnir voru fluttir úr fangelsinu á öðrum tímanum í dag. „Það er í fyrsta sinn bara opið hér út,“ segir fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is.

„Nú hefur verið skellt í lás þarna eftir samfelldan fangelsisrekstur síðan 1989,“ segir Páll ennfremur. „Þetta er skrítin tilfinning,“ bætir hann við.

Páll segir ennfremur að húsinu verði svo skilað til fjármálaráðuneytisins í næstu viku. 

Einar Andrésson varðstjóri á skrifstofu sinni í fangelsinu í Kópavogi …
Einar Andrésson varðstjóri á skrifstofu sinni í fangelsinu í Kópavogi í dag. mbl.is/Eggert

Fangelsið opnað í apríl 1989

Fangelsið Kópavogsbraut 17 var opnað í apríl árið 1989 og þar var hægt að vista tólf fanga ef allir klefar voru nýttir. Þar var áður starfrækt unglingaheimili ríkisins. Í fangelsinu voru allir kvenfangar vistaðir, en þar voru líka vistaðir karlfangar. Ein kona og einn karl voru eftir í fangelsinu en þau voru færð í önnur fangelsi í dag, konan var flutt til vistunar í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg.

Það fylgir því heilmikil vinna að loka heilu fangelsi.
Það fylgir því heilmikil vinna að loka heilu fangelsi. mbl.is/Eggert

Aðspurður segir Páll að stefnt sé að því að vista allar konur á Akureyri, en tvær konur voru fluttar þangað fyrr í vikunni, eða í opnum fangelsum, þ.e. á Kvíabryggju eða á Sogni, og eftir atvikum á áfangaheimillum.

Bíða þolinmóð eftir fangelsinu á Hólmsheiði

Konan sem var flutt í Hegningarhúsið mun aðeins dvelja þar í stuttan tíma vegna skipulagsmála, sem Páll segir að geti verið snúin enda geti konur komið í gæsluvarðhald með engum fyrirvara. 

Það var í mörg horn að líta hjá varðstjóranum í …
Það var í mörg horn að líta hjá varðstjóranum í dag. mbl.is/Eggert

 „Það skal fúslega viðurkennt að þetta er ekki einfalt verkefni,“ segir Páll sem getur að öðru leyti ekki tjáð sig um málefni einstakra fanga. Málin séu aftur á móti leyst frá degi til dags.

„Núna skiptum við konunum niður á fangelsin sem eftir eru og bíðum þolinmóð eftir Hólmsheiðinni þar sem sómasamlegur aðbúnaður kvenna verður fyrir hendi,“ segir Páll. 

Ákvörðun um að loka fangelsinu í Kópavogi lá fyrir um sl. áramót þegar ljóst var að ríkið myndi skera niður útgjöld til fangelsismála. 

Síðustu fangarnir voru færðir í önnur fangelsi eftir hádegi í …
Síðustu fangarnir voru færðir í önnur fangelsi eftir hádegi í dag. mbl.is/Eggert

 Páll tekur fram að mikil skipulagsvinna liggi að baki svona ákvörðun og hann tekur fram að stofnunin vinni eftir gildandi mannréttindaákvæðum.

mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert