„Sorgleg niðurstaða“

Moska í Feneyjum. Henni hefur nú verið lokað.
Moska í Feneyjum. Henni hefur nú verið lokað. Ljósmynd/Guðmundur Oddur Magnússon

Borgaryfirvöld í Feneyjum hafa frá upphafi sýnt mikla tortryggni í garð framlags Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist 2015 og fremur reynt að leggja steina í götu þess en að greiða fyrir því að það gæti gengið áfallalaust.

Þá hefur Feneyjatvíæringurinn sjálfur, sem er stofnun á vegum borgarinnar, heldur ekki stutt listrænt framlag Íslands með þeim hætti sem eðlilegt gæti talist.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag lokaði lögreglan í morgun íslenska skálanum á Feneyjartvíæringnum. Um er að ræða innsetningu listamannsins Christoph Büchel, í Santa Maria della Misericordia-kirkjunni í Cannaregio-hverfinu í Feneyjum. Verkið heitir Moskan.

Frétt mbl.is: Moskunni í Feneyjum lokað

Í tilkynningunni er ítrekað að framlag Íslands Feneyjatvíæringsins í myndlist sé almenn, opinber listsýning, sem fram fer undir merkjum Tvíæringsins í Santa Maria della Misericordia kirkjunni, sem hefur verið afhelguð og var leigð í þeim tilgangi að hýsa þetta verkefni yfir sýningartímann.

„Síðustu mánuði hefur Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, listamaðurinn og allt sýningarteymið unnið hörðum höndum að því að svara fyrirspurnum frá borgaryfirvöldum Feneyja, en í hvert sinn sem þeim hefur verið svarað hafa komið nýjar fyrirspurnir. Aðalágreiningsmál borgaryfirvalda og Kynningarmiðstöðvarinnar hefur falist í því hvort að verkið sé listaverk eða ekki, þrátt fyrir að framlag íslenska skálans sé opinbert framlag Íslands til hinnar 56. alþjóðlegu myndlistarsýningu Feneyjatvíæringsins,“ segir í tilkynningunni.

„Nöturleg skilaboð til heimsins“

Eiríkur Þorláksson, formaður stjórnar Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, segir að þetta sé sorgleg niðurstaða fyrir margra hluta sakir. Feneyjar hafi allt frá 18. öld verið einn helsti áfangastaður gesta hvaðanæva að úr heiminum, sem sækja hana heim til að njóta þess glæsileika, þeirrar sögu og þeirra lista sem borgin hefur að geyma. Með ákvörðun sinni hafi yfirvöld borgarinnar kosið að hafna þeim möguleika að borgin geti einnig orðið vettvangur umræðu og sátta manna í milli um málefni sem varða miklu fyrir íbúa Feneyja, Íslands og heimsins almennt.

„Það eru nöturlegt skilaboð til heimsins að nokkrum dögum eftir að Frans I. páfi, yfirmaður kaþólsku kirkjunnar, viðurkennir formlega ríki Palestínumanna og opnar þannig fyrir aukna samræðu milli kristinna manna og þeirra sem aðhyllast múhameðstrú, þá skuli yfirvöld í Feneyjum kjósa að loka listrænum vettvangi sem var ætlað að fóstra slíkra samræðu í borginni, en þess í stað kjósa fylgja slóð afneitunar, fordóma og hræðslu.

Með lokun íslenska framlagsins í Santa Maria della Misericordia-kirkjunni er jafnframt ljóst að Feneyjatvíæringurinn í myndlist, sem hefur verið einn helsti alþjóðlegi samfögnuður myndlistar um áratuga skeið, er ekki vettvangur frjálsrar listsköpunar, þar sem listamenn geta með list sinni vakið athygli á málefnum líðandi stundar. Listamenn sem valdir eru til þátttöku á Feneyjatvíæringnum virðast nú aðeins mega fjalla um viðfangsefni sem eru stjórnvöldum þóknanleg, eða sem að minnsta kosti eru talin hættulaus,“ segir Eiríkur.

Það verður nú verkefni Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin, og síðan gefa mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem fól Kynningarmiðstöðinni að annast þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum, skýrslu um málið.

Ljós­mynd­ir frá því í morgun á vef blaðsins Corri­ere del Veneto

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert