Stoltur af Maríu með stóru röddina

Sæþór Kristjánsson, einn þeirra sem skipar þríeykið Stop Wait Go, …
Sæþór Kristjánsson, einn þeirra sem skipar þríeykið Stop Wait Go, er ánægður með Maríu Ólafsdóttur og íslenska hópinn. Ljósmynd/Andres Putting

Sæþór Kristjánsson, einn þeirra sem skipar þríeykið Stop Wait Go, er ánægður með Maríu Ólafsdóttur og íslenska hópinn.

Hann segist vera spenntur fyrir framtíðinni og því sem hún ber í skauti sér. Hann er stoltur af ungu dömunni með spékoppana og risastóru röddina. Þetta segir Sæþór í færslu á Facebook-síðu sinni. 

Frétt mbl.is: „Ég söng af mér rassgatið“

„Fyrir næstum því 5 árum síðan sátum við strákarnir ásamt fleirum og hlustuðum á nemendur úr Verzlunarskóla Íslands syngja fyrir okkur lög i áheyrnarprufum fyrir Nemó 2011. Sumir söngvararnir voru slæmir, margir ágætir, en það var ein ung dama með spékoppa og risastóra rödd sem skar sig algjörlega útúr hópnum.

Þessi stelpa, sem fyrir stuttu síðan var svo feimin að hún þorði ekki að fá sér sæti í stúdíóinu hjá okkur, stóð í kvöld á sviði fyrir framan alla Evrópu og söng eins og enginn væri morgundagurinn!

Á mjög stuttum tíma breyttist líf hennar 100% og henni var hent inn í þessa stórfurðulegu hringiðu sem Eurovision er, með alla þjóðina á bakinu, þar sem hún stóð sig eins og sönn hetja og við strákarnir gætum ekki verið stoltari af henni!

Hefði lagið getað verið flutt betur? Hefði lagið sjálft getað verið betra? Hefði atriðið getað verið betra? Hver veit.. Það eina sem ég veit er að allir þátttakendur lögðu sig 100% fram, skiluðu sínu, og fara héðan stoltir af sinni frammistöðu.

María, þú ert ein hæfileikaríkasta manneskja sem ég þekki og 5 árum seinna er ég ennþá alltaf í sjokki þegar þú opnar munninn og byrjar að syngja! Þú átt allt það besta skilið og ég vona að þú haldir áfram að láta drauma þína rætast!

Þetta byrjaði allt í kjallaranum í Versló, svo kom stúdíóið uppá Höfða, þar á eftir geggjaða stúdíóið í London, og núna í dag Eurovision hér í Vín… Ég er mjög spenntur að sjá hvað gerist næst,“ segir Sæþór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert