„Þetta er ömurlega leiðinlegt“

Þingmenn eru orðnir þreyttir að sögn þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Þingmenn eru orðnir þreyttir að sögn þingmanns Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Stjórnarandstaðan á Alþingi lagði til við upphaf þingfundar í dag að dagskrá fundarins yrði breytt og að umræða um rammaáætlun yrði tekin af dagskrá og að önnur aðkallandi mál í samfélaginu rædd. „Þjóðin borðar ekki rammaáætlun,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.

Fundurinn hófst klukkan 10 og þá áttu að hefjast umræður um störf þingsins. Þingmenn minnihlutans kváðu sér hins vegar til hljóðs um fundarstjórn forseta. 

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að minnihlutinn hefði fullan hug að ræða aðkallandi mál í samfélaginu. Hann skoraði á þingmenn meirihlutans að greiða atkvæði með því að virkja þingið til þeirra starfa sem af því sé ætlast, í stað þess að hanga í sama farinu. 

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að logaði í ágreiningi í samfélaginu og á Alþingi. Það væri áfellisdómur yfir stjórnmálunum að hafa sett þessi ágreiningsmál í þann farveg að allir væru að nota sinn ítrasta rétt. Hann sagði að Alþingi ætti að fara fram með góðu fordæmi til að lesya þennan ágreining með skynsamlegum hætti.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, sagði að minnihlutinn vildi leita sátta og leggja rammann til hliðar. „Þjóðin borðar ekki rammaáætlun; launin hækka ekki þó að rammáætlun yrði samþykkt hér í dag,“ sagði hún. 

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri góður dagur í dag til að ná sáttum. Það myndi hins vegar ekki gerast með atkvæðagreiðslu - það væri ekki rétta leiðin. „Við erum búin að tala okkur hás og ganga á okkur blöðrur til komast hingaði í púltið dag eftir dag og kvöld eftir kvöld,“ sagði hann og bætti við að þreytan væri byrjuð að segja til sín. 

„Auðvitað er þetta bara ömurlega leiðinlegt - þetta er þreytandi og þetta er ekki það sem við viljum. Ekkert af okkur,“ sagði hann. 

Atkvæðagreiðslufrestað um 10 mínútur. Í framhaldinu stigu þingmenn minnihlutans upp í pontu til að gera grein fyrir atkvæðum sínum. 

Dagskrártillagan var síðan felld með 30 atkvæðum gegn 19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert