Var einhver annar Sigurður?

Gestur sagðist spyrja sig hvort það væri annar Sigurður í …
Gestur sagðist spyrja sig hvort það væri annar Sigurður í málinu. Árni Sæberg

„Barnið sagði að keisarinn væri ekki í neinum fötum og kannski vantar barn í dómsalinn.“ Þetta sagði Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarsson, fv. stjórnarformanns í Kaupþingi, í dag, en aðalmeðferð stóra markaðsmisnotkunarmáls Kaupþings lauk í dag eftir 22 daga. Gestur lagði með þessum orðum áherslu á þá skoðun sína að málflutningur ákæruvaldsins stæði ekki á traustum grunni í málinu.

Segir saksóknara með villandi framsetningu

Í andsvörum sínum í dag sagði Gestur að saksóknari hafi ítrekað gerst sekur um að brjóta gegn hlutlægnisskyldu sinni og það hafi sýnt sig síðasta mánudag þegar saksóknari sagði Sigurð hafa játað á sig markaðsmisnotkun. Slíkt sé þó alveg andstætt sannleikanum og þau orð sem saksóknari vitnaði til hafi verið tekin úr samhengi að sögn Sigurðar.

Þá benti Gestur á að saksóknari hefði í ákæru sinni verið með furðulega framsetningu sem væri mjög villandi og hefði áhrif á hughrif manna. Þegar verið sé að sýna hversu oft bréf hafi hækkað í lokunartilboðum hafi meðal annars verið sagt að 14% tilvika hafi bréf hækkað, í 60% tilvika hafi þau staðið í stað og í 26% tilfella lækkað. Í ákærunni hafi svo verið talað um að 74% daganna hafi verð bréfa hækkað eða staðið í stað. Sagði hann þetta í raun rétt, en alveg jafn rétt og að í 86% tilvika hafi bréfin lækkað eða staðið í stað. Ljóst væri að þarna væri ástæðan sú að skapa hughrif.

Þekki mann og stjórnaði banka

Saksóknari hafði áður verið með andsvör í málinu og þá gert athugasemdir við málflutning og röksemdir Gests í málinu. Gestur svaraði því til að þær röksemdir og tengingar sem saksóknari byggði málflutning sinn á væru heldur haldlitlar. Þannig hafi Sigurður á einum stað ákærunnar verið tengdur við málsatvik með að segja að hann hafi verið í nánum samskiptum við Hreiðar og verið virkur í stjórn bankans. Sagði Gestur þetta furðulega röksemdafærslu sem mætti endurorða á þann hátt að Sigurður væri sekur af því að hann þekkti mann og ræktaði skyldu sína að stjórna bankanum, en Sigurður var sem fyrr segir stjórnarformaður í bankanum.

Sagði Gestur að stundum velti hann því fyrir sér hvort að það væri einhver annar Sigurður í málinu, enda væri lýsingin á þeim Sigurði sem hann þekkti og væri að verja nokkuð önnur en gögn málsins sýndu fram á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert