„Þarf eitthvað mikið að gerast“

Forstjóri Landspítalans segir að verkfall hjúkrunarfræðinga muni valda gríðarlegri röskun.
Forstjóri Landspítalans segir að verkfall hjúkrunarfræðinga muni valda gríðarlegri röskun. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Ég er frekar svartsýnn á að það náist að afstýra verkfalli fyrir miðvikudaginn. Það þarf eitthvað mikið að gerast í millitíðinni,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við mbl.is.

Síðasti samningafundur í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins var á fimmtudaginn. Hann var árangurslaus og hefur ekki verið boðað til nýs fundar, að sögn Ólafs. Stuttur tími er til stefnu, enda skellur verkfall hjúkrunarfræðinga á eftir tæpa fjóra sólarhringa.

Ólafur segir að verkfallið myndi hafa gríðarleg áhrif á allt heilbrigðiskerfið.

Fimm hundruð störf hjúkrunarfræðinga eru á undanþágulista frá verkfallinu. „Ég hef verið að ræða við forsvarsmenn heilbrigðisstofnana. Á þessum undanþágulista eru um 500 hjúkrunarfræðingar og maður heyrir á forsvarsmönnunum að þeir treysta sér ekki til að reka stofnanirnar eins og sá listi lítur út í dag.

Það er mjög augljóst að þeir þurfa að sækja um fleir undanþágur ef þeir ætla að láta þetta ganga. Þetta verður mjög alvarlegt ástand sem þarna skapast,“ segir Ólafur.

Fordæmalaust ástand

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í pistli í gær að fordæmalaust ástand myndi skapast í heilbrigðiskerfinu fari hjúkrunarfræðingar í verkfall á miðvikudaginn.

Spítalinn er enn að glíma við afleiðingar verkfalla lækna í vetur auk þess sem fjögur félög BHM höfðu verið í verkfalli á Landspítalanum í 45 daga. Búið er að fresta 54.500 blóðtökum vegna verkfalla BHM, blóðsýni hafa skemmst, 6.100 myndgreiningarrannsóknum hefur verið frestað, 370 skurðaðgerðum og 1.700 komum á dag- og göngudeildir.

Hjúkrunarfræðingar eru þriðjungur starfsmanna spítalans. Verkfall þeirra mun valda gríðarlegri röskun. Til dæmis þarf að loka að minnsta kosti hundrað legurúmum frá byrjun verkfalls auk lokunar margra dag- og göngudeilda. Páll biðlar til deiluaðila að ná samningum því líf og limir liggi við.

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert