Dýrustu kúnnarnir fara fyrst

Verkfall starfsmanna í ferðaþjónustu gæti skaðað greinina til langs tíma …
Verkfall starfsmanna í ferðaþjónustu gæti skaðað greinina til langs tíma að mati Kristofers. Sigurður Bogi Sævarsson

Dýrustu bókanir geta auðveldlega sópast í burtu og í staðinn þarf að fylla þær upp á lægra verði. Afleiðingin af verkfallsaðgerðum núna er ekki ósvipuð því sem gerðist í eldgosinu, nema að þá höfðu ferðamenn skilning á aðstæðum en það er ekki sama umburðarlyndi fyrir verkföllum. Þetta segir Kristofer Oliversson, eigandi Center hotels í samtali við mbl.is Hann segir málið í raun ekki flókið. „ef við stöndum okkur ekki vel áfram þá mun hætta að ganga vel,“ segir hann og vísar til þess að hótelin þurfi að standa við þau loforð um þjónustu sem þau hafa þegar samið um.

Dýrustu kúnnarnir viðkvæmastir

Kristofer segir að dýrustu kúnnarnir séu viðkvæmastir, viðskiptaferðamenn og ráðstefnugestir. Þeir hætti strax við ef verkföllin fari að hafa áhrif og langtímaáhrif þess er að Íslandi fari í flokk með löndum sem ekki er hægt að treysta á sem áfangastað.

Enn sem komið er hefur ekki verið mikið um afbókanir að sögn Kristofers, en fyrirspurnum hafi þó rignt inn. Segir hann að aftur á móti hafi hægt töluvert á sölunni og nýjum bókunum og það sé gríðarlegt tjón, enda sé um að ræða vinsælasta og dýrasta tíma ársins. Segir hann að þannig geti dýrustu bókanirnar sópast í burtu og þá þurfi að lækka verð. Verkföllin geti því haft gríðarleg áhrif.

Ekki bara skammtíma skaði

Kristofer segir að með verkfallsaðgerðum sé ferðaþjónustu Íslands ekki bara sköðuð til skamms tíma heldur til langs tíma. „Það er ekki hægt að láta það gerast,“ segir hann og bætir við að um sé að ræða mjög umfangsmikið mál sem hafi áhrif á allt landið og gríðarlegt fjárhagstjón fyrir stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar í dag.

Telur hann að ef aðilar vinnumarkaðarins geti ekki leyst málið þurfi „að treysta á að stjórnvöld beiti sér fyrir lausn og geri það sem gera þarf.“ Aðspurður hvort hann eigi þar við lögbann eða ekki segir Kristofer að það sé ekki hægt að skaða landið með þessum hætti til lengri tíma.

Aðgerðir hefjast 30. maí

Fjölmargir hótelstarfsmenn eru í stéttarfélaginu Eflingu og hefjast verkföll þar 30 maí og standa í tvo daga. Frá 6. júní er svo boðað ótímabundið allsherjarverkfall. Kristofer segir að aðeins stjórnendur megi vinna á þessum tímum og því ljóst að mjög erfitt verði að halda úti venjulegri starfsemi. Segir hann það í raun vera ókost núna að hafa ekki haft meiri yfirbyggingu.

Kristofer Oliversson
Kristofer Oliversson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert