Fengu annað tækifæri í lífinu

Bræðurnir Ein­ar Árni og Hilm­ir Gauti með foreldrum sínum.
Bræðurnir Ein­ar Árni og Hilm­ir Gauti með foreldrum sínum. mbl.is/Rax

Kraftaverkabræðurn­ir Ein­ar Árni og Hilm­ir Gauti Bjarna­syn­ir hafa náð ótrúlegum bata á síðasta mánuðinum. Hinn 14. apríl síðastliðinn voru þeir nær drukknaðir í lækn­um við Reyk­dals­stíflu í Hafn­ar­f­irði, og tví­sýnt var um líf þeirra. Aðeins tveimur vikum eftir slysið voru þeir þó mættir aftur í skólann heima á Tálknafirði og í dag eru þeir farnir að spila fótbolta af kappi á ný.

Bjarni Ein­ars­son, faðir drengj­anna, segist afar þakklátur. „Við hefðum ekki getað fengið stærri happdrættisvinning. Þetta er í raun annað tækifæri í lífinu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Sjá einnig: Kraftaverk að bræðurnir lifðu

Bræðurnir lentu í læknum þegar þeir reyndu að ná í bolta, og festust í hyl þaðan sem afar erfitt reyndist að ná þeim. Hilm­ir Gauti, sem er 9 ára gam­all, var í hjartastoppi í 40 mínútur áður en björgunarfólki tókst að endurlífga hann. Honum var haldið sofandi í öndunarvél fyrstu dagana eftir slysið, en Ein­ar Árni, sem er 12 ára, komst fljótt til meðvit­und­ar. 

Undraverður bati

Tíu dögum eftir slysið voru bræðurnir formlega útskrifaðir af Landspítalanum, en starfsfólk spítalans átti bágt með að trúa undraverðum bata þeirra. „Þetta tók svo rosalega skamman tíma. Hilmir Gauti var búinn að vera í svæfingu í marga daga en var svo farinn að hlaupa nokkrum dögum seinna,“ segir Bjarni.

Fljótlega eftir útskrift af spítalanum hélt fjölskyldan aftur til Tálknafjarðar þar sem þau búa. Daginn eftir voru bræðurnir farnir aftur í skólann. „Það er ekki að sjá að þeir komi neitt skaðaðir út úr þessu. Þeir fúnkera vel í skólanum og eru hressir,“ segir Bjarni, en bætir við að Hilmir Gauti sé enn frekar úthaldslaus.

Fær bakslag í ákveðnum aðstæðum

Bjarni segir hversdagsleikann hafa gengið tiltölulega áfallalaust fyrir sig, en Einar Árni hafi þó fengið bakslag í ákveðnum aðstæðum. „Hann fór í sund daginn eftir að við komum til Tálknafjarðar og þá fékk hann blóðnasir í sundlauginni og líkaminn virtist fara í svipaðar aðstæður og í slysinu,“ útskýrir hann og bætir við að Einar Árni hafi dottið út í eina og hálfa klukkustund og ákveðið hafi verið að flytja hann til Reykjavíkur með sjúkraflugi til skoðunar. „Læknarnir fundu þó ekkert að honum en héldu að líkaminn hefði farið í svipaða stöðu og þegar slysið varð.“

Viku síðar var hann að leika sér í rólu þegar hann lenti í svipuðum aðstæðum. „Hann fékk hálfgert lost. Það er eins og það slokkni á honum og hann fari í einhvers konar meðvitundarleysi,“ segir Bjarni en bætir við að þessi eftirköst hafi þó minnkað mikið. „Hann hefur ekki lent í svona losti aftur eftir þetta, en það er ekkert óvenjulegt að lenda í einhverju eins og þessu eftir svona stórt slys.“

Þakka fyrir óþekktina

Fjölskyldan hittir reglulega áfallateymi og vinnur saman úr áfallinu. Að sögn Bjarna man Hilmir Gauti þó ekkert eftir slysinu og bræðurnir ræða það lítið sem ekkert. Þá á Hilmir enn eftir að fara í sína síðustu rannsókn þar sem hann fer í heila- og taugaskanna. 

„Við erum að bíða eftir þessari síðustu úttekt upp á þessar vísindalegu rannsóknir. En hvað varðar úthaldið þá batnar það með hverjum deginum og það er engin sjáanleg breyting á karakter eða neinu slíku,“ segir hann og bætir við að rannsóknin muni fara fram í lok júní eða byrjun júlí.

„En þetta er allt á réttri leið,“ segir hann á lokum. „Á þessum stundum þökkum við fyrir kraftinn í þeim sem við höfum á öðrum stundum kallað óþekkt.“

Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði mbl.is/Kristinn
Bræðurnir Einar Árni (t.v.) og Hilmir Gauti (f.m) ásamt foreldrum …
Bræðurnir Einar Árni (t.v.) og Hilmir Gauti (f.m) ásamt foreldrum sínum þeim Bjarni Einarssyni og Hafdísi Jónsdóttur og systkinum sínum þeim Jóni Axeli og Kristjönu Júlíu. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert