Hrein úrslitaskák Héðins og Hjörvars

Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistari.
Hjörvar Steinn Grétarsson stórmeistari. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lokaumferð Íslandsmótsins í skák hefst klukkan 13 í dag. Héðinn Steingrímsson er efstur með 8,5 vinninga og Hjörvar Steinn Grétarsson er annar með 8 vinninga. Þeir mætast í dag í hreinni úrslitaskák og stýrir Hjörvar hvítu mönnunum. Hjörvar þarf sigur til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn en Héðni dugar jafntefli.

Skákáhugamenn eru hvattir til að fjölmenna í Hörpu og fylgjast með.

Héðinn vann í gær mjög góðan sigur á Lenku Ptacnikovu þar sem hann fórnaði peði fyrir mjög sterk færi og tefldi framhaldið af miklum krafti og vann sér inn vinning.

Á sama tíma lenti Hjörvar Steinn Grétarsson snemma í vandræðum og varð að lokum að gefa skiptamun gegn Jóni L. Árnasyni. Jón pressaði af krafti lengi vel en Hjörvar varðist af hörku. Varð úr að Jón náði ekki að gera sér liðsmuninn að góðu og jafntefli varð niðurstaðan eftir mikla baráttuvörn hjá Hjörvari.

Af öðrum skákum var það að frétta að Björn Þorfinnsson náði fram grimmilegum hefndum fyrir bróður sinn Braga. Björn var með algjörlega og gjörsamlega gjörtapað tafl en á einhvern óskiljanlegan hátt lék Henrik grátlega af sér og tapaði drottningunni. Henrik sá engu að síður spaugilegu hliðina á afleik sínum og gat ekki annað en hlegið eins og sást í beinni netútsendingu!

Bragi Þorfinnsson varð að draga sig úr leik vegna fjölskylduaðstæðna þannig að Sigurður Daði fékk frían vinning í umferð dagsins.

Guðmundur Kjartansson stóð mjög lengi höllum fæti gegn Hannesi Hlífari en eygði von þegar hann krafðist jafnteflis þegar hann taldi að sama staðan hefði komið upp þrisvar. Sú krafa reyndist ekki réttmæt en sem betur fer fyrir Guðmund varð jafntefli engu að síður niðurstaðan nokkrum leikjum síðar.

Miklar sviptingar voru einnig í skák hins nýbakaða alþjóðlega meistara Einars Hjalta Jenssonar og Jóhanns Hjartarsonar. Staðan var lengi vel í jafnvægi en Jóhann seldi sig dýrt við að reyna að knýja fram vinning. Á einum tímapunkti gekk það svo langt að staða hans var töpuð en Einar missti af tækifærinu og fékk þess í stað tapað tafl. Mikilvægur sigur fyrir Jóhann sem hafði tapað ótrúlegum fjórum skákum í röð.

Lokahóf mótsins fer fram í Smurstöðinni í Hörpu og verður milli 19 og 21 í kvöld. Þangað eru allir átján ára og eldri velkomnir til að fagna nýjum Íslandsmeistara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert