Réttindi þín ef flug fellur niður

Ef verk­föll­in skella á má gera ráð fyr­ir því að …
Ef verk­föll­in skella á má gera ráð fyr­ir því að flug­sam­göng­ur til og frá land­inu muni lam­ast. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjölmargir, allt að 300 manns, sem starfa við flugafgreiðslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar munu leggja niður störf ef af verkfalli Flóabandalagsins og VR verður í lok mánaðarins.

Ef ekki tekst að semja munu verkfallsaðgerðir hefjast á miðnætti 31. maí og standa til miðnættis 1. júní. Ótímabundið allsherjarverkfall skellur síðan á þann 6. júní.

Ljóst er að verkfallsaðgerðirnar munu hafa mikil áhrif á alla starfsemi á Keflavíkurflugvelli, sem og flugsamgöngur, og sagði Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, í samtali við mbl.is í gær að aðgerðirnir myndu líklegast lama alla starfsemi flugstöðvarinnar.

Frétt mbl.is: 300 leggja niður störf í Leifsstöð

Flugfarþegar eru ekki réttindalausir ef til verkfalls kemur, en í Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega er kveðið á um ýmis lágmarksréttindi flugfarþega sem flugrendur þurfa að virða. Ber flugrekendum að upplýsa farþega um þessi réttindi þeirra, samkvæmt upplýsingum frá Neytendasamtökunum.

Réttur flugfarþega þegar töf er á flugi fer eftir því hversu löng töfin er með hliðsjón af lengd flugs, að þvi er segir á vef Neytendasamtakanna:

Ef töfin fram yfir áætlaðan brottfaratíma er

  • 2 klst. eða meira á flugi sem er 1.500 km. eða styttra (t.d. öll innanlandsflug á Íslandi)
  • 3 klst. eða meira á flugi sem er 1.500 – 3.500 km (t.d. flug frá Íslandi til Norðurlandanna og fleiri landa í Evrópu)
  • 4 klst. eða meira á flugi sem er lengra en 3.500 km (öll flug frá Íslandi til Bandaríkjanna),

þá á flugrekandi að bjóða farþegum endurgjaldslaust máltíðir, hressingu og hótelgistingu ef þörf er á. Einnig þarf flugrekandi að bjóða farþegum flutning til og frá flugvelli sé þess þörf, ásamt því að gefa farþegum möguleika á að hringja tvö símtöl eða senda skilaboð.

Verkfall veldur því að flugi er aflýst

Ef verkfallið veldur því að flugi er aflýst getur flugfarþegi átt rétt á að fá farmiða sinn endurgreiddan eða honum breytt þannig að hann komist til lokaákvörðunarstaðar við fyrsta tækifæri og skal hann þá fá viðeigandi þjónustu á meðan beðið er eftir næsta flugi.

Flugfarþegar geta leitað til Samgöngustofa og óskað eftir ákvörðun hennar ef þeir telja að flugrekendur hafi brjótið gegn rétti sínum. Jafnframt geta starfsmenn Neytendasamtakanna annast milligöngu í deilumálum félagsmanna sinna við flugrekendur.

Hér má lesa um réttindi flugfarþega í verkföllum á vef Samgöngustofu

mbl.is/Hjörtur
mbl.is/Sigurgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert