„Tungumál opna margar dyr“

Brynhildur Ásgeirsdóttir við útskriftina í gær.
Brynhildur Ásgeirsdóttir við útskriftina í gær. Mynd/Borgarholtsskóli

„Ég ætlaði upphaflega aðallega að læra frönsku en þegar kom að því að velja næsta tungumál fann ég að þýskan átti betur við mig,“ segir Brynhildur Ásgeirsdóttir sem útskrifaðist úr Borgarholtsskóla í gær. Hún fékk viðurkenningu fyrir frábæran árangur í alþjóðlegu þýskuprófi sem hún þreytti fyrir skömmu, úr höndum menningarfulltrúa þýska sendiráðsins.

Hún útskrifaðist af tungumálabraut og segir þau opna margar dyr. „Ég fann strax hvað þýskan átti vel við mig og svo bauðst mér að fara á þriggja vikna þýskunámskeið úti í Þýskalandi í gegnum námið í Borgarholtsskóla. Þar tengdist ég fólki vel í gegnum tungumálið. Ég uppskar svo bara eins og ég sáði í náminu,“ segir Brynhildur sem er dóttir þeirra Elísabetar Magnúsdóttur og Ásgeirs Harðarsonar.

Brynhildur hlaut einnig hæstu einkunn á stúdentsprófi, 9.39, og hún fékk einnig verðlaun fyrir frábæran árangur í íslensku, ensku, dönsku og frönsku.

Hún tók í fyrra þátt í ólympíuleikunum í þýsku eftir að hafa unnið undankeppnina hér á landi. Það vekur athygli að þrír í íslenska liðinu voru úr Borgarholtsskóla. „Ég hef lært mikið í skólanum og fengið ótrúlegan stuðning frá kennurunum. Þau trúa á mann þótt maður trúi stundum ekki á sjálfan sig.“

Ekki hægt að læra nóg

Aðspurð hvernig best sé að læra tungumál segir hún það snúast um að vera óhræddur. „Maður má ekki vera að hugsa um þessar villur sem koma þegar maður talar heldur bara halda áfram. Það er líka best að vera í aðstæðum þar sem þú þarft að tala. Ég lærði til dæmis mest af því að gista hjá þýskri fjölskyldu þegar ég fór í ferð til Þýskalands með þýskuhópi úr Háskóla Íslands í vor,“ segir Brynhildur. Hún ætlar í haust að hefja nám einmitt við Háskóla Íslands, í þýsku og ensku.

Þegar blaðamaður spyr hvort það komi aldrei að þeim tímapunkti að maður kunni nóg í þýsku svarar hún hlæjandi: „Það held ég ekki. Ég get alveg verið að læra þýsku út lífið. Hugsanlega fer ég svo í mastersnám í Þýskalandi en síðan mun allt koma betur í ljós. Eins og staðan er núna veit ég ekki hvernig ég ætla að nýta þýskukunnáttuna, það kemur allt saman í ljós.“

„Tungumál opna margar dyr og það er þörf á þeirri kunnáttu alls staðar í heiminum,“ segir Brynhildur að lokum.

Mynd/Borgarholtsskóli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert