„Við krossum bara fingur“

Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir að öllum verslunum Hagkaupa verði lokað vegna verkfallsaðgerða VR, Flóabandalagsins og LÍV, takist ekki að semja fyrir áætlað verkfall. Frá miðnætti 2. júní til miðnættis 3. júní leggja starfsmenn í fyrrgreindum félögum niður störf náist ekki að semja fyrir þann tíma.

„Það sama á við um okkur og Bónus,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is aðspurður hvort verslunum Hagkaupa verði lokað, líkt og verslunum Bónuss. „Það eru ábyggilega hátt í 99% af okkar starfsfólki í VR þannig að það eru sömu forsendur þar. Ég á því von á því að búðunum verði lokað, komi til verkfalls.“

Gunnar sagði að það væri slæmt að þurfa að loka búðunum. „Já, engin spurning, það er ekki gott fyrir neinn ef það þarf að loka þessu. Vonandi gyrða menn sig í brók og klára þessa samninga.“ Hann bætti við að ekki væri vitað hversu mikið Hagkaup myndu tapa á því að loka búðunum í þessa tvo daga.

Gunnar vonar það besta en er ekki of bjartsýnn. „Eins og ég segi þá er allra hagur að menn nái að semja en eins og staðan er í dag virðast menn ekki vera komnir alltof nálægt hver öðrum. Það er fáránlegt að fleiri þúsund þurfi að fara á hliðina ef menn ná ekki samningum og það er engum til góða. Við krossum bara fingur.“ 

Frétt um lokanir í verslunum Bónuss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert