Andlát: Skúli Alexandersson

Skúli Alexandersson, fyrrverandi alþingismaður.
Skúli Alexandersson, fyrrverandi alþingismaður. Skessuhorn/ÞÁ

Skúli Alexandersson, fyrrverandi alþingismaður og sveitastjórnarmaður, lést á laugardaginn á Landspítalanum, 88 ára að aldri. Skúli fæddist þann 9. september 1926 og sat á þingi í fyrir Alþýðubandalagið á árunum 1979-1991.

Skúli ólst upp á jörðinni Kjós, nærri þeim stað sem Djúpuvíkurþorpið byggðist upp. Foreldrar Skúla voru þau Alexander Árnason, bóndi, og Sveinsína Ágústsdóttir, húsmóðir.

Hann lauk héraðsskólaprófi á Reykjanesi árið 1942 og lauk Samvinnuskólaprófi árið 1950 í framhaldsdeild Samvinnuskólans.

Hann starfaði sem verslunarmaður hjá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki 1951-1952 og hjá Kaupfélagi Hellissands 1952-1955. Á árunum 1954-1969 rak hann útgerð og var framkvæmdastjóri Jökuls hf. á Hellissandi síðan 1961. Þá var hann forstöðumaður Gistihússins Gimli á Hellissandi frá 1991.

Hann var oddviti Neshrepps utan Ennis 1954-1966, 1970-1974 o 1978-1981. Hann sat í stjórn landshafnar í Rifi 1959-1990. Þá var hann í flugráði 1980-1987 og í stjórn Sementsverksmiðjunnar 1980-1989. Formaður Skógræktar- og landverndarfélagsins undri Jökli síðan 1990. 

Hann sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið fyrir Vesturlandskjördæmi á árunum 1979-1991.

Á veg Skessuhorns er ævi Skúla rifjuð upp og vitnaði í viðtal sem blaðið tók við hann fyrir ári síðan þar sem hann tjáir sig um heimabyggð sína þar sem hann var sveitastjórnarmaður til margra ára.

„Undirstöðuatvinnugreinarnar, sérstaklega sjávarútvegurinn, eru sterkar á Snæfellsnesi. Ferðaþjónustan er líka stöðugt að eflast og á mikla framtíð fyrir sér. Ég var baráttumaður fyrir því að sveitarfélögin sameinuðust og varð fyrir vonbrigðum að Grundarfjörður og Stykkishólmur kæmu ekki inn í sameininguna þegar Snæfellsbær varð til. Ég held að sameinað sveitarfélag á Snæfellsnesi, sem yrði það annað stærsta á Vesturlandi, gæti gefið slagkraft til aukinnar uppbyggingar á svæðinu. Ég býst við að fyrr en seinna þurfi fólk að fara að huga að því. Við þurfum að standa saman, það gerir okkur sterkari. Fjölbrautaskólinn er gott dæmi um það og mjög mikilvægt að við getum varið alla starfsemi á svæðinu og eflt hana. Öðruvísi fjölgar fólkinu ekki eða byggðin eflist,“ sagði Skúli þá.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert