Leiguverð enn lang hæst á Íslandi

Verð á bílaleigubílum við flugstöðvar er lang hæst hér á …
Verð á bílaleigubílum við flugstöðvar er lang hæst hér á landi miðað við aðra staði í Evrópu. Photo: Sigurður Bogi

Meðalverð bílaleigubíls við Keflavíkurflugvöll er um 150% hærra en meðalverð við aðrar flugstöðvar í Evrópu, en dagverð fyrir tveggja vikna leigu er komið niður í 8.018 krónur hér á landi úr 9.134 krónum í könnun sem gerð var í lok mars. Verð á öðrum stöðum í Evrópu hefur á þessum tíma einnig lækkað og því stendur verðið í Keflavík enn langt fram úr öðrum stöðum.

Vefurinn Túristi.is hefur tekið saman þessar tölur undanfarna mánuði, en þar má sjá á ítarlegan hátt þann verðmun sem er á milli leigu hér á landi og á öðrum stöðum. Miðað er við leigu á minnstu gerð bíla yfir sumarið í tvær vikur í senn og er meðalverð sumarsins notað. Inn í verðinu er ótakmarkaður akstur og kaskótrygging. 

Næst dýrasti staðurinn er Osló, en þar kostar meðaldagurinn 6.809 krónur. Í Genf, Basel og Zurich kostar dagurinn 3.382 krónur, en við aðra flugvelli er verðið lægra og lægst í London þar sem dagurinn kostar aðeins 1.821 krónur. Það þýðir að í London geta ferðalangar leigt bíl í rúmlega fjóra daga fyrir sama verð og fyrir einn dag hér á landi.

Meðalverð allra staðanna í þessari mælingu er 3.168 krónur, en verðið á Íslandi er rúmlega 150% hærra en það verð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert