„Maður verður að elska Guð“

Kaþólskar nunnur í Kosovo. Myndin var tekin á páskadag.
Kaþólskar nunnur í Kosovo. Myndin var tekin á páskadag. AFP

Á síðasta ári gengu 45 konur í klaustur í Englandi og Wales en sú tala hefur ekki verið hærri í 25 ár. Systir Agnes í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði segir það eðlilegt að ákveðin aukning verði í mismunandi löndum á mismunandi tímum. Hún segir að það þegar kona ákveður að helga líf sitt Guði er hún að svara ákveðinni köllun. 

„Flestar okkar gengu í klaustur um eða stuttu eftir tvítugt. Ég held að það sé vegna þess að margar fá þessa köllun í kringum þann tíma sem maður fullorðnast í raun og veru. En það er alltaf köllun frá Guði sem veldur því að kona ákveður á ganga í klaustur,“ segir systir Agnes í samtali við mbl.is.

Nunnur rúmlega 700.000 talsins

Í gegnum tíðina hafa nunnur komið mörgum spánskt fyrir sjónir, sérstaklega hér á landi. Íslendingar eru vanir að sjá nunnur aðeins í sjónvarpinu eða kvikmyndum og tengja margir nunnulífið við kvikmyndir eins og The Sound of Music og Sister Act. Þó er hægt að finna nunnur í Reykjavík, Hafnfarfirði, Stykkishólmi, Akureyri og Egilsstöðum og halda þær úti öflugu starfi. 

Í grein BBC um þessa aukningu kvenna þar í landi sem ganga í klaustur kemur fram að fjöldi nunna í heiminum fari sífellt minnkandi. Árið 1973 voru nunnur heimsins um milljón talsins en árið 2013 voru þær aðeins 710.000.

En hvað er að gerast í Bretlandi og hvað er það sem fær konur sem búa í nútímaveröld til þess að ganga í klaustur?

Opnari umræða kaþólsku kirkjunnar

Samkvæmt grein BBC hefur kaþólska kirkjan síðustu ár reynt að útskýra á opnar hátt hvað nunnur gera en líf þeirra hefur lengi vel verið falið bakvið veggi klaustranna. Presturinn Christopher Jamison, sem rætt er við í grein BBC, telur þó að ástæðan snúist um margt annað en aukna upplýsingagjöf frá kirkjunni.

Að mati Jamison sækir ungt fólk frekar í kristna trú til þess að fylla í skarð þegar það kemur að tilgangi lífsins. „Fyrir litla hópa, heillar þetta „trúarlega líf“ gífurlega því það leiðir fólk að hjarta mannlegs lífs í dag: að hjarta þess að vinna fyrir fátæka, lifa lífi í jafnvægi og trú á því að það sé meira til lífsins,“ segir Jamison.

Samkvæmt grein BBC hefur orðið aukning í öllum gerðum nunnureglna í Bretlandi. Reglurnar þar í landi eru misopnar gagnvart samfélaginu. Sumar nunnur í Lundúnum hafa til dæmis verið að fylgja lögreglu þegar gerð eru áhlaup á vændishús. Þá er hlutverk nunnanna að hjálpa þeim konum sem hafa orðið fórnarlömb mannsals. Aðrar starfa með fátækum eða eldri borgurum.

Ellefu nunnur í Hafnarfirði

Ellefu nunnur búa í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Árið 1937 var veitt leyfi til byggingar Karmelkalusturs í Hafnarfirði en nunnurnar fluttu fyrst inn í október 1940. Í Karmelklaustrinu er daglega haldnar messur þar sem allir eru velkomnir. Nunnurnar halda líka úti öflugri verslun með hannyrðum og er iðulega mikið að gera á tímum jólahátíðarinnar og ferminga. Þar er m.a. hægt að kaupa handgerð kerti, útsaum og myndir.

Að sögn systur Agnesar bætist yfirleitt ein og ein við í hópinn og var síðast tekið á móti nýjum meðlimi fyrir þremur árum. Hún segir að til þess að verða nunna þarf maður að helga lífi sínu reglunni. „Ég sjálf upplifði köllun og ég veit maður getur ekki gerst nunna án þess. Maður er helga sig þessu og maður verður að elska guð. Þeir sem taka þessa ákvörðun vilja lifa í kærleik og lifa fyrir hann [Guð] og fólkið.“

Frá verslun Karmelsystra í Hafnarfirði.
Frá verslun Karmelsystra í Hafnarfirði. Rax / Ragnar Axelsson
Systir Agnes.
Systir Agnes. Árni Sæberg
Nunnur ganga til kosninga í Bretlandi fyrr í mánuðinum.
Nunnur ganga til kosninga í Bretlandi fyrr í mánuðinum. AFP
Kaþólskar nunnur fagna á pálmasunnudag í Jerúsalem.
Kaþólskar nunnur fagna á pálmasunnudag í Jerúsalem. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert