Sigur á 40 ára landsliðsafmælinu

Jón Baldursson margfaldur Íslandsmeistari í brids er spilandi fyrirliði íslenska …
Jón Baldursson margfaldur Íslandsmeistari í brids er spilandi fyrirliði íslenska liðsins. mbl.is/Ómar

„Við höfum spilað á erfiðari móti en þessu, þetta stóð yfir í þrjá daga en Evrópumótin standa yfir í tvær vikur,“ segir Jón Baldursson, spilandi fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í Brids sem varð norðurlandameistari um helgina í Færeyjum.

Íslenska liðið fékk 128,05 stig og Færeyingar, sem höfnuðu í öðru sæti, hlutu 107,33 stig. Danir, sem þóttu sigurstranglegir, hlutu 101,02 stig og höfnuðu í þriðja sæti.

Lið Íslands í opnum flokki skipuðu Bjarni H. Einarsson, Aðalsteinn Jörgensen, Gunnlaugur Sævarsson, Kristján M. Gunnarsson, Jól Baldursson og Sigurbjörn Haraldsson.

„Mótið byrjaði þokkalega hjá okkur, síðan spiluðum við tvo leiki við Dani og unnum þá báða nokkuð þægilega. Þá vorum við komnir með ágætisforrystu á mótinu og þurftum bara að halda haus það sem eftir var. Það tókst,“ segir Jón.

Undirbúningur fyrir mótið hefur staðið yfir frá því að Íslandsmeistaramótinu í brids lauk fyrir um mánuði síðan. „Lykillinn að velgengni er að æfa vel. Íslandsmótið var fyrir mánuði og við höfum verið í lokaundirbúningi síðan þá.“

Á mótinu eru sex lið og spilaðir eru tveir leikir við hvert lið. Með sigrinum varði íslenska liðið titilinn frá því fyrir tveimur árum þegar Norðurlandamótið var haldið hér á landi.

Annað sem glepur unga fólkið

„Fjórir í liðinu voru í liðinu fyrir tveimur árum og svo eru tveir nýir. Þegar vel liggur á okkur erum við lið í heimsklassa,“ segir Jón og útskýrir að öflug bridsmenning sé á Íslandi. „a' vamtar aðeins yngri menn inn í bridsið núna, það er annað sem glepur unga fólkið í dag. En það hefur verið öflug bridsmenning hjá okkur lengi.“

Hann segir að best sé þegar fólk byrjar að spila brids fyrir tvítugt en að erfitt sé þó að kenna krökkum spilið. „Þegar þú spilar brids þá sérðu ekki allar hendur og þarft að hugsa um eitthvað sem þú sérð ekki. Öfugt við til dæmis skák þar sem þú sérð allt skákborðið. Það er eiginlega ekki hægt að kenna krökkum brids fyrr en við fermingaraldur.“

„Í Bandaríkjunum, Ísrael, Hollandi og svo í Svíþjóð og Danmörku höfum við séð ung efnilega lið koma fram.“

Mótið í ár markaði skemmtileg tímamóti hjá Jóni en 40 ár eru síðan hann lék fyrst með landsliðinu. „Það var því tilvalið að vinna mótið af því tilefni.“

Aðspurður hvernig landsliðið sé nú miðað við áður segir hann það ágætt. „við vorum með mjög öflugt lið á tíunda áratugnum, svo höfum við aðeins dalað en erum samt alltaf nálægt toppnum. Árið 2010 komumst við á HM og vorum með mjög öflugt lið. Við stefnum alltaf að því að ná upp frábæru liði aftur,“ segir Jón.

Færeyingar lentu í öðru sæti og Danir í því þriðja.
Færeyingar lentu í öðru sæti og Danir í því þriðja.
Íslenska landsliðið á gönguferð ofan við Þórshöfn í vikunni. Norðurlandameistaramótið …
Íslenska landsliðið á gönguferð ofan við Þórshöfn í vikunni. Norðurlandameistaramótið fór fram í Færeyjum þetta árið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert