Vilja ekki samning sem aðrir gera

Páll Halldórsson, formaður BHM.
Páll Halldórsson, formaður BHM. mbl.is

Fundað var í kjaradeilu BHM og ríkisins í dag og lítið þokast í samningsátt. Samningamenn BHM lýstu óánægju sinni með ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum í gær þar sem hann sagði að ekki yrði samið við BHM fyrr en samið yrði á almennum vinnumarkaði. „Við ræddum hver staða þessara viðræðna væri í framhaldi af yfirlýsingu forsætisráðherra í fjölmiðlum í gær,“ sagði Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, í samtali við mbl.is. 

„Með þessu var hann í raun og veru að segja að við hefðum ekki sjálfstætt samningsumboð, með því að halda því fram að það yrði ekki við okkur samið fyrr en samningar væru í höfn, eða fyrirsjáanlegir, og yrðu í samræmi við þá.“ BHM telur að ríkið verði að gera sjálfstæðan samning sem lítur að öðrum atriðum en aðrir eru að tala um. „Við teljum að ríkið verði að gera sjálfstæðan samning við okkur sem lítur að þeim atriðum sem við erum að horfa á og eru kannski ekki eins mikið til umræðu á öðrum fundum eins og mat á menntum og öðru slíku.“

Lítur BHM þannig á að ríkið sé að reyna að semja við alla í sama pakkanum? „Samkvæmt þessu. Það þýðir að við höfum ekki umboð til að gera kjarasamning, heldur verðum við bara að skrifa upp einhverja samninga sem aðrir gera. Þetta skýtur dálítið skökku við því fjármálaráðherra lýsti því yfir á föstudag að samninganefnd ríkisins hefði fullt umboð.“ Páli fannst umræður síðustu viku ganga ágætlega, menn hafi allavega verið farnir að tala saman.

Honum þykir fjármála- og forsætisráðherra ekki tala í sömu átt. „Þannig upplifir maður það og við þurfum að fá þetta á hreint. Fundinum lauk með því að við óskuðum eftir því hvort samninganefnd ríkisins hefði raunverulegt umboð til að tala við okkur eða ekki.“ Efist þið þá um vilja ríkisins til að semja? „Allavega hlýtur maður að gera það í framhaldi af þessum viðtölum við forsætisráðherrann.“

Næstu skref í þessari kjaradeilu er að fá þessi mál á hreint. „Við bíðum svara og ég vonast til að þetta mál verði hreinsað upp fljótt og vel. Þannig að við getum haldið áfram og klárað þetta mál,“ sagði Páll Halldórsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert