Samningar háðir kaupmáttaraukningu

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.

Þær samningsforsendur sem liggja fyrir í viðræðum Flóabandalagsins, LÍV, VR og StéttVest við SA byggja á því að á næstum árum verði hér á landi kaupmáttaraukning. Ef það gengur ekki upp opnast samningurinn. Með þessu fara félögin fram með ábyrgum hætti sem á að tryggja kaupmáttaraukningu og stöðugleika án mikillar verðbólgu. Þetta segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, í samtali við mbl.is

Virtust sigla í strand fyrir viku síðan

Ólafía segir að viðræður við SA hafi virst sigla í strand í síðustu viku vegna hugmynda SA um breytingar á vinnulagsfyrirkomulagi. Eftir harðorða yfirlýsingu frá stéttarfélögunum hafi verið ljóst að þessar breytingar væru of viðamiklar og strax daginn eftir, á fimmtudeginum í síðustu viku, hafi félögin sest niður með SA og svo fundað frá morgni fram á kvöld alla helgina.

Niðurstaðan úr þeim viðræðum voru drög að samningum sem Ólafía segir að hafi lofað góðu og því hafi félögin ákveðið að fresta verkfallsaðgerðum og kynna samninganefndum sínum drögin. Það var svo gert í kvöld og fengu félögin umboð frá stóru samninganefndum sínum til áframhaldandi viðræðna.

Enn eftir að semja um ýmsar bókanir

Ólafía segir að endanlegur texti og samningur liggi þó ekki fyrir og að enn eigi eftir að semja um ýmsar bókanir, t.d. nánari lýsingu á ákvæðinu um kaupmáttaraukningu og starfsmenntamál. Hún segist vonast til þess að endanlegur texti verði tilbúinn á fimmtudaginn og að hægt verði að kynna hann fyrir samninganefndunum. Samþykki nefndirnar samninginn fer hann í almenna atkvæðagreiðslu félagsmanna, en ef nefndirnar hafna honum þarf að halda viðræðum áfram. Ólafía segir að ef það gerist verði verkföllum ekki aflétt.

Líta ekki á samninginn sem ógn við verðstöðugleika

Á fyrsta ári samningsins munu lægstu laun hækka um 7,2%, upp að 300 þúsund króna launum. Aðspurð hvort það búi ekki til mikla pressu á atvinnulífið að auka framleiðni og á sama tíma koma í veg fyrir verðbólgu sagði Ólafía að það væri mat þeirra að með þessum hætti væri verið að semja á ábyrgan hátt. „Við lítum svo á að með þessu sé ekki verið að ógna verðstöðugleika,“ sagði Ólafía og bætti við að samningurinn væri í byrjun hærri en færi svo stiglækkandi næstu árin. Þá væri sem fyrr segir ákvæði í samningnum sem eigi að tryggja kaupmáttaraukningu og það sé ákvæði sem eigi að tryggja verðstöðugleika að hálfu stéttafélaganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert