Sáttin rofin af fyrri ríkisstjórn

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar. mbl.is/Styrmir Kári

Fullyrðingar um að sátt um rammaáætlun hafi verið rofin með tillögu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um breytingar á áætuninni standast enga skoðun. Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Vísar hann þar til þess að ákveðin sátt hafi náðst um rammaáætlun á síðasta kjörtímabili sem þáverandi ríkisstjórn hafi haft að engu. Þar hafi virkjanakostir sem nú yllu deilum á Alþingi, í neðri Þjórsá og Skrokkalda, í nýtingarflokki.

„Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, ákvað að samþykkja ekki fyrirliggjandi aðalskipulag sveitarfélaganna á svæðinu og var sú aðgerð dæmd löglaus í Hæstarétti. Hún sagði við það tækifæri að lög skiptu hana ekki máli þegar kæmi að náttúruvernd. Þetta lögbrot hennar varð til þess að þessar virkjanir hafa ekki enn verið byggðar, með tilheyrandi tjóni fyrir samfélagið. Í dag sakar hún meirihluta þingsins um að brjóta lög um rammaáætlun með því að fara ekki að niðurstöðu verkefnastjórnar, sem er ráðgefandi nefnd fyrir ráðherra um skipan virkjanakosta í flokka. Í lögunum er ekki fjallað um málsmeðferð tillögu á Alþingi, heldur eingöngu hvernig staðið skal að málum í stjórnsýslunni,“ segir hann.

Jón leggur áherslu á það í greininni að málsmeðferð Alþingis sé í samræmi við lög um þingsköp en þar sé skýrt kveðið á um rétt þingmanna til þess að flytja breytingartillögur við einstök mál. Breytingartillögur meirihluta atvinnuveganefndar hafi verið sendar til fjölda umsagnaraðila og tugir gesta hafi komið á fund nefndarinnar til þess að ræða málið. Niðurstaða meirihlutans eftir þá vinnu hafi verið að umræddir virkjanakostir færu í nýtingarflokk þrátt fyrir að niðurstaða núverandi verkefnastjórnar hafi verið að hafa þá flesta í biðflokki áfram.

„Svandís Svavarsdóttir og fleiri ákváðu eftir sambærilegt ferli að fara ekki að tillögum þáverandi verkefnisstjórnar og bar fram tillögu um að færa kostina í biðflokk. Það ætti að vera öllum ljóst sem kynna sér málið, að sátt um rammaáætlun var rofin af þeim sem nú hafa hæst. Það er miður, en nú er einfaldlega verið, með málefnalegum rökum, að færa þessa kosti í nýtingarflokk þannig að áfram verði haldið að vinna með þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert