„Það hefur enginn afboðað sig“

Fjölmörg skemmtiferðaskip leggja að höfn í Reykjavík í sumar.
Fjölmörg skemmtiferðaskip leggja að höfn í Reykjavík í sumar. mbl.is/Eggert

Fjölmörg skemmtiferðaskip leggja að Reykjavíkurhöfn á hverju sumri. Munu fyrirhuguð verkföll, sem munu hafa áhrif á starfsemi olíufélaganna, hafa áhrif á skipakomur í sumar? 

„Fyrstu áhrifin verða ekki mikil. Þetta hefur nú blasað við síðan í fyrra,“ sagði Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, í samtali við mbl.is. „Við höfum skoðað stöðuna þokkalega framan af ári, hvernig þetta muni snerta okkur. Fyrst um sinn gerist ekki mikið.“

Erlendu skemmtiferðaskipin virðast ekki óttast að verða strandaglópar á eyju lengst norður í hafi. „Þau geta lagst að og leyst frá höfn. Það hefur enginn afboðað sig allavega.“

Segir hann að einhver röskun verði komi til allsherjarverkfalls. „Já það segir sig sjálft að þá verður einhver röskun á hafnarsvæðinu hjá okkur. En öll hafnarsvæðin hjá okkur verða opin. Umferðin um svæðið mun þó eflaust minnka eitthvað. Skipin geta komið en það er spurning með rútur og slíkt fyrir ferðamennina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert