Vilja semja til nokkurra mánaða

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að ríkið …
Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að ríkið sé að reyna að kaupa sér tíma. mbl.is/Golli

Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið. Að óbreyttu hefst allsherjarverkfall hjúkrunarfræðinga sem starfa á stofnunum ríkisins á miðnætti.

Af 1.600 stöðugildum hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu eru 500 á undanþágulista og því 1.100 á verkfallsskrá. Síðast var fundað í kjaradeilunni í gær og var sá fundur árangurslaus. Hann stóð yfir í rúma hálfa klukkustund.

Gerir ráð fyrir mörgum beiðnum

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að erfitt sé að segja til um hvar staðan verði verst, komi til verkfalls. Margir hjúkrunarfræðingar starfa á Landspítalanum og því mun staðan eðli málsins samkvæmt vera erfið þar. Þá nefnir Ólafur einnig heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sjúkrahúsið á Akureyri í þessu samhengi. 

Undanþágunefnd vegna verkfallsins tekur til starfa í dag. Ólafur segir að undanþágubeiðnir séu enn að berast félaginu og gerir hann ráð fyrir að beiðnirnar verði margar. 

Tilboð ríkisins er að sögn Ólafs langt frá því sem hjúkrunarfræðingar geta sætt sig við en um er að ræða skammtímasamning til nokkurra mánaða með lítilli hækkun launa.

Telur Ólafur að með þessum stutta samningi sé verið að kaupa tíma. Segir hann að hjúkrunarfræðingar hafi samþykkt stuttan samning í fyrra með lítilli hækkun launa en félagsmenn muni ekki taka þátt í  þeirri vegferð á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert