Barðist út úr bátnum

Þórður með sonum sínum, Bjarna og Hektori Inga.
Þórður með sonum sínum, Bjarna og Hektori Inga.

Þórður Almar Björnsson, komst í hann krappan þegar trillubátur hans, Herkúles SH 147, sökk skammt utan Hellissands í Breiðafirði þann 19. maí. Björgunarbátur sem var um borð opnaðist ekki og var Þórður í sjónum án flotgalla í um fimmtán mínútur áður en honum var bjargað um borð í Ólaf Bjarnason SH 137. „Ég var búinn að vera á veiðum í brælu en svo kom blíða í einn og hálfan til tvo tíma. Ég náði að klára veiðiskammtinn en svo kom bölvuð bræla þegar ég var á leið til baka,“ segir Þórður.

Komst ekki í flotgallann

Hann segir að mikill sjór hafi gengið yfir bátinn og því fór hann hægt, á um 4-5 sjómílna hraða, í átt til hafnar. Hann setti dælur í gang til þess að losa sjó úr bátnum. „Svo rýkur hitamælirinn upp á vélinni hjá mér og það er engu líkara en það sé að sjóða á vélinni. Því drep ég á henni og fer niður í vél en sé um leið að það er ekkert að sjóða þar. Líklega var mælirinn bilaður,“ segir Þórður. Um þetta leyti var vélarrýmið orðið hálffullt af sjó og því tók Þórður að dæla vatni með handvirkri dælu. „Svo var kominn það mikill sjór í bátinn að handpressan gat ekki dregið loft og þá þurfti ég að hætta að dæla. Ég fór þá í stýrishús, fann flotgalla og reyndi að koma mér í hann. En það eru svo þröngir vettlingar á gallanum að ég komst ekki í hann. Þá fékk ég fregnir af því að Ólafur Bjarnason ætlaði að sigla til mín. Ég fór úr gallanum til að halda áfram að ausa úr bátnum en sá fljótlega að báturinn var farinn að hallast.“

„Kippti og kippti í fangalínuna“

„Þá vissi ég að ég væri að fara að missa bátinn niður og hljóp inn í stýrishús til að troða mér í gallann. En um leið snerist báturinn upp á rönd og stefnið var það eina sem stóð upp úr. Ég var því kominn á kaf inni í stýrishúsi og því var ekkert að gera annað en að berjast út.“

Í framhaldinu náði hann að losa björgunarbátinn. „Ég kippti og kippti í fangalínuna en ekkert gerðist. Báturinn opnaðist ekki,“ segir Þórður.

Hafið var erfitt viðureignar og Þórður saup mikinn sjó. Hann reyndi að spyrna fótum í kassann til að toga og losa björgunarbátinn en allt kom fyrir ekki. „Því notaði ég kassann og reyndi að hanga á honum til þess að geta verið á floti,“ segir Þórður. „Ég reyndi að komast upp á kassann en ég er þyngri en kassinn og hann snérist bara þegar ég reyndi,“ segir Þórður. Hann segist hafa barist um í sjónum í um fimmtán mínútur áður en björg barst. „Ég var alveg búinn á því. Auðvitað var maður orðinn skelkaður, sérstaklega þar sem maður vissi að það var nokkuð langt í næsta bát. Ég reyndi að vera rólegur og hugsa um að halda mér á floti, maður ætti náttúrlega tvö börn heima og fleira í þeim dúr,“ segir hann. Þegar þeir tóku mig upp í Ólaf Bjarnason, þá var ég orðinn svo máttlaus að ég gat ekki staðið í fæturna og hrundi á dekkið,“ segir Þórður.

Hann segist vera afar þakklátur „strákunum“ á Ólafi Bjarnasyni. „Þeir pökkuðu mér inn í teppi og héldu mér vakandi,“ segir Þórður. Þegar í land var komið var hann skoðaður af lækni áður en hann fór heim til að hvíla sig. „Ég fékk mér að borða, fór í bað og svaf meira og minna í tvo daga,“ segir Þórður. Spurður segist Þórður ekki smeykur við sjóinn eftir þessa lífsreynslu. „Helst langar mig að komast á sjóinn sem fyrst,“ segir Þórður.

Báturinn var nýskoðaður

Bátur Þórðar, Herkúles SH-147, var um árs gamall að sögn hans. Var hann skoðaður viku til tíu dögum fyrir slysið. Skipverjar á Ólafi Bjarnasyni náðu kassanum, sem er utan um björgunarbátinn, um borð. Var Þórði tjáð að ekki hefði átt að vera gerlegt að toga fangalínuna svo langt út án þess að báturinn opnaðist. „Maður veit ekki hvort gerð hafi verið mistök þegar bátnum var pakkað inn í skoðuninni, en það lítur þannig út,“ segir Þórður.
Frétt mbl.is: Rannsaka hvað fór úrskeiðis
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert