Eldar Ástþórsson tók sæti á þingi

Eldar Ástþórsson ásamt börnum sínum Sögu og Huga.
Eldar Ástþórsson ásamt börnum sínum Sögu og Huga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldar Ástþórsson tók í dag sæti á Alþingi fyrir Bjarta framtíð í forföllum Bjartrar Ólafsdóttur þingmanns flokksins. Eldar hefur ekki áður tekið sæti á Alþingi og var því landskjörstjórn kölluð saman að ósk forseta þingsins til þess að gefa út kjörbréf fyrir hann. Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd Alþingis fundaði síðan stuttlega í morgun og gerði enga athugasemd við bréfið.

Eldar er fæddur árið 1977 og starfar sem fjölmiðlafulltrúi og verkefnisstjóri markaðsdeildar hugbúnaðarfyrirtækisins CCP. Þá hefur hann einnig starfað sem framkvæmdastjóri Iceland Airwaves hátíðarinnar. Eldar lærði sagnfræði og fjölmiðlafræði í Svíþjóð. Hann býr í vesturbæ Reykjavíkur ásamt eigin konu sinni Evu Einarsdóttir og tveimur börnum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert