Fólkið sem bíður heima í mikilli óvissu

„Ég held að það finni mest fyrir því [verkfallinu] það fólk sem bíður heima og fær ekki þjónustu,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum og á við fólk sem bíði aðgerða eða rannsókna án þess að vera metið í bráðri hættu.

Óvissan sé mikil þar sem ófyrirséð er hvað verkfallið komi til með að standa lengi yfir og því geti heilsu fólks hrakað á meðan það bíði eftir að deiluaðilar nái saman. Hún segir fyrsta sólarhring verkfallsins hafa gengið nokkuð vel en um 50 undanþágubeiðnir hafa verið afgreiddar alls til að sinna málum af ýmsu tagi.  

Búið er að sameina tvær skurðdeildir á Landspítalanum við Hringbraut og aðrar tvær í Fossvogi sem þýðir að sjúklingar flytjast á milli deilda og starfsfólk fylgir með þeim. Þegar ekki hefur tekist að losa rúm hefur þurft að sækja um undanþágur sem hún segir hafa verið auðsótt og skjótafgreitt hingað til. Hjúkrunfræðingar umfram þá sem eru á samþykktum öryggislistum fái þá að sinna sjúklingum. 

Búið hafi verið að undirbúa daginn vel og tekist hafi að útskrifa töluvert af fólki til að létta álagið á meðan verkfallinu stendur. Ekki er búið að skipuleggja næsta fund hjúkrunarfræðinga við ríkið en Sigríður segir mikilvægt að fylgjast vel með ástandinu til að geta brugðist hratt við því sem kemur upp.

Fólk sem finnur fyrir áhrifum verkfalla heilbrigðisstarfsfólks er hvatt til að hafa samband við fréttastofu mbl.is og deila reynslu sinni. netfrett@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert