Friðurinn úti með Hraðfréttum

Anna Lísa er ánægð í starfi sínu í mötuneytinu og …
Anna Lísa er ánægð í starfi sínu í mötuneytinu og að umgangast allt það ágæta fólk sem vinnur á RÚV. mbl.is/Eggert

Matráðskonan í mötuneyti RÚV, Anna Lísa Wíum Douieb, sá aumur á fréttastjórunum Benedikt Valssyni og Fannari Sveinssyni, þegar þeir byrjuðu að væla í henni um að taka stöðu veðurfréttakonu Hraðfrétta. Hún náði ótrúlega skjótum starfsframa því fyrr en varði var hún gerð að veðurnáttúruhamfarafréttakonu.

A nna Lísa Wíum Douieb var uppgötvuð í mötuneyti RÚV, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hún hóf þar störf sem matráður fyrir rúmu ári, nýflutt til Reykjavíkur frá Varmahlíð í Skagafirði. Hún er helst á því að tuðið og nöldrið í sér – og eiginlega bara hvernig hún er og talar – hafi heillað þá félaga Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson, fréttastjóra Hraðfrétta. Þeir þurftu að ganga töluvert á eftir henni áður en hún samþykkti að fara í prufutöku, sem henni fannst reyndar alveg út í hött og ekkert sem hún hafði sóst eftir.

„Þeir vældu bara svo mikið í mér að ég ákvað að slá til, bara svona í gamni. Það hvarflaði ekki að mér að þeir vildu svona kerlingu eins og mig. Ég gerði mér enga grein fyrir hvað ég væri að fara út í, hafði hvorki horft á Hraðfréttir né þátt Gunnars á Völlum, og sá mig ekki almennilega fyrir mér í hlutverki veðurfréttakonu,“ segir Anna Lísa, sem nánast á hraða ljóssins vann sig upp í að verða veðurnáttúruhamfarafréttakona.

Fékk ekkert handrit

Þótt hún sé fjarri því að vera feimin að eðlisfari, viðurkennir hún að hafa verið svolítið stressuð fyrir fyrstu tvo þættina, enda aldrei áður komið fram í sjónvarpi.

Var þér ekkert sagt hvað þú ættir að gera?

„Nei, nei, þeir útskýrðu voða lítið og ég fæ aldrei handrit. Þú átt að vera í eldhúsinu með hinum eða þessum, segja þeir kannski og svo ræð ég alveg hvað ég segi.“

Hefur þessi nýi starfsvettvangur breytt einhverju í lífi þínu?

„Friðurinn er búinn.“

Hvernig þá?

„Ég finn að fólk glápir stundum á mig og margir víkja sér að mér, heilsa með handabandi og kynna sig, bæði í Nettó og þegar ég fer út að skemmta mér með vinkonum mínum. „Fyrirgefðu, þekki ég þig?“ spurði ég einn sem vatt sér að mér. Sá kvað svo ekki vera, en sagðist alltaf heilsa Loga Bergmann og framvegis ætlaði hann alltaf að heilsa mér. Allir eru mjög kurteisir. Gömul kona á elliheimili sagðist vera farin að horfa á Hraðfréttir af því að það væri svo gaman að fullorðin kona væri komin í fréttaliðið.“

Þú ert nú ekkert rígfullorðin, aðeins 55 ára...

„En samt... ég er engin stelpupjása. Annars veit ég hreinlega ekki hvaða fólk hefur gaman af nöldrinu í mér eða hvers vegna það horfir á Hraðfréttir.“

Vandræðaklastur?

Sumir tala um gelgjuklám og vandræðaklastur. Hvað segirðu við slíkri gagnrýni?

„Stundum finnst mér krakkarnir ganga of langt og get orðið voða hneyksluð, alveg lamið mig í hausinn og hugsað með mér hvað ég væri eiginlega búin að láta bendla mig við. En þetta eru æðislegir krakkar.“

Gefur þú þeim tiltal þegar þér þykir þeir fara yfir strikið, eða finnst þér þeir alltaf vera fyndnir?

„Ég sagði Gunnari að hann ætti ekki alltaf að vera að bera sig, fara úr að ofan, það væri bara ógeð. Þeir hlæja bara. Nýjasta nýtt hjá þeim er að ég má ekki opna munninn, þá fara þeir að taka af mér myndir með þessu „snapschatti“, eða hvað það heitir. Þeir vita að það fer í taugarnar á mér, en þeim er alveg sama.“

Ef þú fengir að ráða, myndirðu breyta Hraðfréttum og þá hvernig?

„Ekki hugmynd. Ég horfði bara á síðasta þáttinn. Mér finnst svo óþægilegt að sjá sjálfa mig í sjónvarpinu svo ég ákvað að vera ekkert að horfa á þá.“

Elskar Ragga Bjarna

Hvað er fyndnasta atriðið í Hraðfréttum sem þú hefur tekið þátt í?

„Þegar ég fór í sjósundið.“

En var það ekki algjör hryllingur?

„Mér kom mest á óvart að sjórinn var ekkert svo kaldur og hvað ég var köld að vaða svona upp að mitti og vera margar mínútur í sjónum. Mörgum fannst mjög fyndið þegar ég hljóp á eftir Geir Jóni – ég er náttúrlega svona lítil, þybbin kona, móð og másandi, skilurðu. En þú mátt alveg segja að ég elski Ragga Bjarna, sem var nýlega í Hraðfréttum. Við náðum svo vel saman, hlógum svo mikið að við gátum ekki gert það sem okkur var sagt að gera og því þurfti að taka atriðið með okkur margoft upp. Ég vissi ekki að hann væri svona fyndinn, mér hafði alltaf þótt hann frekar leiðinlegur. Núna er hann mitt uppáhalds.“

Ertu á reglulegum veðurnáttúruhamfarafréttavöktum hjá Hraðfréttum?

„Ég talaði við kokkinn og fékk mig lausa í einn og hálfan tíma á fimmtudögum. Þá fer ég í förðun, síðan í stúdíóið og segi það sem mér dettur í hug. Svo er þetta bara búið og ég sný aftur í mötuneytið, sem auðvitað er mitt aðalstarf. Hraðfréttir eru bara Hraðfréttir og allt annar kapítuli í lífi mínu. Ég reyni bara að vera ég sjálf.“

En hver er hún sjálf, Anna Lísa Wíum Douieb? Og hvernig er hinn eða hinir kapítularnir í lífi hennar? Byrjum á Suðurlandi. Anna Lísa ólst upp í Þorlákshöfn til fimmtán ára aldurs, eignaðist kærasta frá Borgarfirði eystra sem hún trúlofaðist og fluttist með til Egilsstaða. Hún var á átjánda ári þegar fyrsta barnið fæddist, og orðin þriggja barna móðir aðeins 22 ára. Fjölskyldan tók sig upp og fluttist til Árósa í Danmörku 1985 þar sem pabbinn fór í skóla og Anna Lísa í dönskunám.

Eftir hálft ár þar ytra skildi leiðir, maðurinn fluttist aftur til Íslands með elsta barnið, en Anna Lísa varð eftir í Árósum með hin tvö.

Hún byrjaði að læra til kokks, vann á matsölustöðum og sinnti búi og börnum.

Anna Lísa fer hratt yfir næsta kapítula. „Ég giftist araba og eignaðist með honum dreng. Hjónabandið gekk ekki, alls konar ágreiningur fór að koma upp á yfirborðið, meðal annars vegna trúarbragða. Áður en ég lét til skarar skríða í maí 1992 hafði ég skipulagt flótta með börnin heim til Íslands í eitt og hálft ár.“

Af flóttanum urðu ýmis eftirmál, sem hún kýs að fara ekki nánar út í, enda sé löngu fennt í sporin.

Ástfangin í gegnum síma

Rómantískur kapítuli fór í hönd fljótlega eftir heimkomuna. „Ég vann við að selja bækur í símaveri, Morgan Kane minnir mig og einhverjar fleiri kiljur. Þótt ég segi sjálf frá var ég nokkuð góður sölumaður. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst mér þó ekki að selja bónda nokkrum norður í Skagafirði eina einustu bók. Ég stakk meira að segja upp á að hann keypti svokallaðar kvennabækur til að gefa konunni sinni, bara svona til að fiska eftir hjúskaparstöðunni. Við urðum smám saman ofsalega góðir vinir, töluðum saman í síma daglega í um mánuð, þótt ég væri hætt að reyna að selja honum bækur. Síðan urðum við einfaldlega ástfangin í gegnum síma. Það er alveg hægt.“

Og hvað svo?

„Nú, ég ákvað að keyra norður og sjá manninn. Mér leist mjög vel á hann en illa á staðsetninguna. Ég var náttúrlega mikil borgarpía, í háhæluðum skóm, með lakkaðar neglur og svoleiðis.“

Bóndakona að Giljum

Ekki liðu þó nema fjórir mánuðir frá því Anna Lísa fluttist heim frá Danmörku þar til hún var orðin bóndi að Giljum í Varmahlíð við hlið síns heittelskaða, Hjalta Jóhannssonar, sem þar var fæddur og uppalinn. Í pakkanum voru þrjú af fjórum börnum hennar frá fyrri samböndum. Ekki leið á löngu þar til þeim hjónum fæddust tvö til viðbótar.

Auk bústarfanna hafði Anna Lísa önnur störf með höndum. Til að byrja með vann hún í frystihúsi, síðan í kjötvinnslu og Kaupfélaginu í Varmahlíð. „Undanfarin sumur hef ég verið ráðskona í hestaferðum hjá Hestasporti og Íshestum. Fyrrasumar var fyrsta sumarið í þrettán ár sem ég fór ekki á fjöll.“

Börnin og barnabörnin

Síðan flyst þú til Reykjavíkur, fannstu ekki sveitakonuna í þér í öll þessi ár?

„Jú, jú, bóndinn getur vitnað um að ég hef mjög gaman af sveitastörfum. Annars er ég þannig gerð að ég helli mér af krafti í það sem ég tek mér fyrir hendur og er býsna úrræðagóð ef því er að skipta. Við hjónin höfum verið í fjarbúð frá því ég byrjaði í mötuneyti RÚV í fyrra. Mig langaði að prófa að búa hér fyrir sunnan nálægt börnunum mínum og níu barnabörnum. Hjalti kemur oft til Reykjavíkur og ég fer norður þegar ég hef tíma.“

Hvað segja afkomendurnir um framkomu þína í Hraðfréttum?

„Ég held að allir séu orðnir sáttir. Annars spyr ég þá voðalega lítið, veit þó að elsta syninum þótti þetta æðislegt, en tveimur næstu hálfóþægilegt. Þau voru hrædd um að ég yrði þeim til skammar. Barnabörnin spyrja mig oft af hverju ég segi þetta og hitt, hvers vegna ég svari Fannari svona og svona, og þar fram eftir götunum.“

Hefur eiginmaðurinn haft einhver orð um hliðarstarf þitt?

„Hann tjáir sig ekkert um það.“

Er einhver merking kannski í því fólgin – að hann tjái sig ekki?

„Ekki nein. Honum finnst þetta bara ekkert merkilegt, enda stjórnar þetta okkur ekkert.“

Ágætisfólk á RÚV

Er eftirspurn eftir þér í Hraðfréttir eftir sumarfrí?

„Ég ef ekki hitt strákana eftir síðasta þátt og veit ekki einu sinni hvort þær verða á dagskrá í vetur.“

Anna Lísa kveðst a.m.k. ekki mundu taka því illa ef þeir prýðispiltar Benedikt og Fannar færu aftur að væla í henni. „Ég er mjög ánægð með að vinna í mötuneytinu og umgangast allt þetta ágæta fólk sem vinnur á RÚV. Aldrei samt að vita nema ég reyni að landa hlutverki á sviði eða í bíómynd.“

Aldrei heldur að vita hvort Önnu Lísu Wíum Douieb er alvara. Trúlega er hún svolítið ólíkindatól.

„Er viðtalið ekki búið núna?“ spyr hún.

Anna Lísa fremst í hópi vinnufélaganna. Frá vinstri: Fannar, Steiney, …
Anna Lísa fremst í hópi vinnufélaganna. Frá vinstri: Fannar, Steiney, Jóhann Alfreð, Benedikt og Gunnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert