Sinna lyfjagjöf og verstu sárunum

Skjólstæðingar sem hafa ekki gott stuðningnet fá frekar þá þjónustu …
Skjólstæðingar sem hafa ekki gott stuðningnet fá frekar þá þjónustu sem þeir hafa verið að fá. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Flestir hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá heimaþjónustu Reykjavíkur vinna samkvæmt kjarasamningi Reykjavíkurborgar og leggja því ekki niður störf í dag. Skjólstæðingar þjónustunnar ættu því ekki að finna fyrir óþægindum og skerðingu á þjónustu. 

Einn hjúkrunarfræðingur er við störf hjá Heimahjúkrun höfuðborgarsvæðisins á heilsugæslunni Sólvangi í Hafnarfirði í dag og sinnir hann aðeins bráðaerindum, meðal annars þeim sem þurfa lyf í æð eða brunn og þeim sem eru með slæm sár. 

Skjólstæðingar sem hafa ekki gott stuðningsnet fá frekar þá þjónustu sem þeir fengið en ættingjar skjólstæðinga hafa verið beðnir um að aðstoða þá á meðan verkfallið stendur yfir. 

Ótímabundið allsherjarverkfall Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti. Enginn samningafundur hefur verið boðaður í kjaradeilunni.  

Fá ekki bað þar til verkfalli lýkur

Einn hjúkrunarfræðingur er við störf hjá Heimahjúkrun höfuðborgarsvæðisins á heilsugæslunni Sólvangi í Hafnarfirði í dag og hefur hann sinnt bráðaerindum skjólstæðinga. Þjónustan er einnig veitt frá heilsugæslunni Firði, Garðabæ, Hamraborg og Mosfellsumdæmi.

Að sögn Heiðu Davíðsdóttur, yfirhjúkrunarfræðings á Sólvangi, eru að jafnaði fjórir til fimm hjúkrunarfræðingar við störf við heimahjúkrunina á degi hverjum. Einn til tveir þeirra starfa á stöðinni og tveir til þrír fara í heimsóknir til skjólstæðinga. Hjúkrunarfræðingurinn sem sinnir skjólstæðingunum í dag sinnir aðeins bráðaerindum, líkt og lyfjagjöfum í æð og brunn og býr um verstu sárin.

Heiða segir að þurft hafi að afboða marga í skemmri innlit í dag. Þá má sem dæmi nefna að þeir sem fá bað einu sinni í viku munu ekki fá þá þjónustu þar til verkfallinu lýkur.

Einn hjúkrunarfræðingur er við störf á kvöldin og er búið að sækja um undanþágu svo hann geti komið til starfa en ekki var reiknað með honum á öryggislista vegna allsherjarverkfalls Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Sinna ekki þeim sem geta beðið

„Þetta eru atriði sem geta beðið og stofna ekki í lífshættu. Þetta kemur mjög illa við fólk og ættingja þar sem álagið leggst á ættingja. Þetta veldur óöryggi og jafnvel kvíða hjá fólki,“ segir Guðlaug Steinsdóttir, verkefnastjóri heimahjúkrunar á Sólvangi, aðspurð um þau tilvik sem ekki verður sinnt vegna verkfallsins.

Guðlaug segir að dregið hafi verið úr þjónustu við skjólstæðinga sem að jafnaði fá þjónustu einu sinni í viku. „Þetta getur verið til dæmis verið eftirlit á líðan, andlegur stuðningur og eftirlit með því að fólkið sé að taka lyfið sín rétt,“ segir hún og bætir við að ekki muni allir fá sín reglulegu líkamsþrif.

Guðlaug segir að erfitt sé að segja nákvæmlega til um hvaða tilvikum er sinnt og hverjum ekki og meta þurfi hvern skjólstæðing og aðstæður hans, til að mynda hversu sterkt stuðningsnet hann hefur í kringum sig.

„Ef hann er með gott net, fjölskyldu, höfum við beðið hana um að sinna viðkomandi,“ segir Guðlaug. Skjólstæðingar sem hafa ekki gott stuðningnet fá því frekar þá þjónustu sem þeir hafa verið að fá.

Taka ekki við nýjum beiðnum

Heimaþjónusta Reykjavíkur sér um heimahjúkrun fyrir  Reykjavík og Seltjarnarnes og einnig Mosfellsbæ á kvöldin. Einn hjúkrunarfræðingur er á vakt á kvöldin og fékkst undanþága vegna starfa hans. Því mun þjónusta á kvöldin heldur ekki falla niður.

Að sögn Dagnýjar Hængsdóttur, hverfisstjóra hjá Heimaþjónustu Reykjavíkur, munu áhrif verkfalls hjúkrunarfræðinga sem hófst á miðnætti í nótt helst koma fram í því að ekki verður tekið við nýjum beiðnum.

250 skjólstæðingar eru hjá þjónustunni og berast að jafnaði um 100 nýjar beiðnir á mánuði. Þá er ekki víst að skjólstæðingar heimaþjónustunnar geti fengið alla þá þjónustu sem þeir þurfi hjá Landspítalanum, til að mynda innlögn vegna hjartabilunar.  

Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í kjaradeilu Félag …
Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í kjaradeilu Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið. mbl.is/Golli
Þeir sem fá bað einu sinni í viku munu ekki …
Þeir sem fá bað einu sinni í viku munu ekki fá þá þjónustu þar til verkfallinu lýkur. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert