Þarf endurhæfingu en situr heima

Anne Kristine Magnúsdóttir nýtir sér þjónustu dagdeildar Grensásdeildarinnar eftir aðgerð …
Anne Kristine Magnúsdóttir nýtir sér þjónustu dagdeildar Grensásdeildarinnar eftir aðgerð sem hún gekkst undir. Þorkell Þorkelsson

Anne Kristine Magnúsdóttir hóf endurhæfingu á dagdeild Grensásdeildarinnar í síðustu viku. Þangað átti hún að mæta þrisvar í viku enda máttlaus eftir aðgerð og þarf nauðsynlega á endurhæfingu að halda.

Þess í stað bíður hún heima þar sem deildin er lokuð vegna verkfalls Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hófst á miðnætti í nótt.

Dagsdeildin er opin alla virka daga og ætluð þeim sem þurfa fjölþætta þjálfun hjá a.m.k. tveimur eða fleiri meðferðaraðilum samhliða. Flestir koma á dagdeild í framhaldi af dvöl á sólarhringsdeild en aðrir koma frá hinum ýmsu deildum spítalans eða að heiman.

„Það er ákaflega erfitt að missa úr dagdeildarþjálfuninni,“ segir Anna í samtali við mbl.is. Boðið er upp á þjálfun allt að fimm daga í viku en fékk hún aðeins þrjá daga. „Þrír dagar fannst mér í það minnsta af því að maður er að reyna að ná upp styrk.“

Hún segir sjúkraþjálfarana á dagdeildinni gera kraftaverk á hverjum degi og ótrúlegt sé hversu miklum framförum hún hafi náð hjá þeim.

Þurfa að vinna upp styrkinn á ný

Anna segir sjúklingana ósátta við að missa úr þjálfuninni. Verkfallinu fylgir óvissa en sjúklingarnir vita ekki hvenær þeir geta komið og fengið þjálfun á ný. Þá óttast hún að tapa þeim árangri sem hún hefur náð.

 „Ég heyrði einn sjúkraþjálfara segja í gær að þriggja daga lega í rúmi þýði að maður þurfi að vinna upp það sem maður var kominn með í kröftum og jafnvægi. Við óttumst að þetta verkfall dragist á langinn og allt það sem við höfum unnið upp fari fyrir bí.“

Anna segir að hjúkrunarfræðingar komi ekki að þjálfun sjúklinganna, aðeins sjúkraþjálfarar og því eigi hún og aðrir sjúklingar erfitt með að skilja af hverju þau megi ekki koma í tækjasalinn og fá sína þjálfun. „Við þurfum ekki að fara upp á deild og hvíla okkur eða borða, við viljum bara fara í tækjasalinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert