„Þetta bætir gráu ofan á svart“

Venjulega eru 90 hjúkrunarfræðingar að störfum á sjúkrahúsinu á Akureyri. …
Venjulega eru 90 hjúkrunarfræðingar að störfum á sjúkrahúsinu á Akureyri. í dag voru þeir aðeins 45. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er nú bara svipað ástand hjá okkur og annarsstaðar. Við erum að keyra á þeim öryggislistum sem hafa verið gefnir út. Við höfum fengið þær undanþágur sem við höfum óskað eftir og erum bara með bráðastarfsemi,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunarsviðs Sjúkrahússins á Akureyri en verkfall hjúkrunarfræðinga í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti. „Engri deild er lokað en við erum með svolítið blandaða starfsemi á deildunum. En það hefur vissulega verið dregið verulega saman á öllum deildum.“

Að sögn Hildigunnar hefur þurft að útskrifa sjúklinga vegna verkfallsaðgerðanna og verður því haldið áfram. „Við höfum útskrifað alla þá sem við treystum til þess að fara heim. Þetta er bráðasjúkrahús og við þurfum að vera til tilbúin til þess að taka inn bráðainnlagnir en það koma alltaf nokkrar á hverjum einasta degi.“ Hún segir að mikil vinna hafi falist í því að reyna að undirbúa sjúkrahúsið fyrir verkfallið. Það er helst gert með því að útskrifa sjúklinga þegar það er hægt.

„Ástand viðkomandi er metið í  hverju tilviki fyrir sig og allir skoðaðir. Auðvitað nýtur sjúklingurinn vafans, það gildir hér í þessu verkfalli sem öllum öðrum. Ef þetta heldur áfram verður voða erfitt að segja til um hvort við getum tryggt öryggi sjúklinga. Við gerum samt allt sem við getum fram að því,“ segir Hildigunnur sem gerir ráð fyrir því að biðlistar eftir skurðaðgerðum og annarri þjónustu muni lengjast dag frá degi. „Þetta mun hafa veruleg áhrif sem á líður.“

Helmingsmönnun í dag

Hildigunnur segir að engum verði vísað frá sjúkrahúsinu. „Við tökum að sjálfsögðu við öllum þeim sjúklingum sem til okkar leita. En við gerum fólki grein fyrir að það gæti þurft að bíða og bendum þeim kannski á önnur úrræði.“

Á venjulegum degi þarf 90 hjúkrunarfræðinga til þess að viðhalda þjónustu á sjúkrahúsinu. Í dag var helmingsmönnun og því um 45 hjúkrunarfræðingar sem mættu til vinnu í morgun. „Það leiðir af sér meiri bið fyrir sjúklinga enda er allt sem getur beðið látið bíða. Hvert tilvik er metið fyrir sig. En við sinnum öllu sem við teljum að við þurfum að gera til að tryggja öryggi fólks,“ segir Hildigunnur.

Hún vonar að deiluaðilar nái samningi sem allra fyrst. „Við verðum ekki lengi í þessu enda er þetta alls ekki gott ástand.“ Hún segir að verkfall hjúkrunarfræðinga geri ástandið á sjúkrahúsinu enn verra en það hefur verið síðustu vikur. „Þetta bætir gráu ofan á svart. Ljósmæðurnar okkar og lífeindafræðingar eru búin að vera í verkfalli í tæpar átta vikur þannig að ástandið hefur svo sannarlega verið betra.“

Öllum skurðaðgerðum frestað

Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Austurlands, lýsir svipuðu ástandi og Hildigunnur.

„Verkfallið hefur þegar haft áhrif. Það er engin ungbarnavernd og engin skólaheilsugæsla, engin þjónusta á skiptistofum okkar og lágmarksþjónusta á sjúkrahúsinu,“ segir Nína og bætir við að öllum skurðaðgerðum á sjúkrahúsinu í Neskaupstað hafi verið frestað í dag. Bráðaþjónustu er þó áfram sinnt, en öll starfsemi sem ekki fellur undir bráðaþjónustu liggur niðri.

Heilbrigðisstofnun Austurlands HSA samanstendur af sjúkrahúsinu í Neskaupstað, heilsugæslustöðvum frá Vopnafirði að Djúpavogi og þremur hjúkrunarheimilum, á Egilsstöðum, Seyðisfirði og Neskaupstað.

Að sögn Nínu hefur gengið sæmilega á hjúkrunarsviði stofnunarinnar í dag en færri eru á vöktum en venjulega. „Það er öryggismönnun á þessum stöðum í dag en því miður er það samt ekkert ólíkt því sem er hjá okkur dagsdaglega. Okkur vantar fagfólk og við erum í vandræðum með mönnun, sérstaklega á þetta við á Seyðisfirði. Þar vantar sárlega hjúkrunarfræðinga, mönnunin þar í dag er svipuð og aðra daga.“

Nína segir að stofnunin hafi undirbúið sig vel með undanþágulistum. „Við vorum búin að skila listanum í nóvember til velferðarráðuneytisins. Hann var síðan sendur fram og til baka þar til það var samþykkt hvernig hann leit út. Við höfum unnið eftir honum í dag en einnig sótt um tvær undanþágur sem hafa báðar verið samþykktar. Við erum í góðu samstarfi við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga,“ segir Nína.

Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar á sjúkrahúsinu á Akureyri.
Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar á sjúkrahúsinu á Akureyri.
Verkfall hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti.
Verkfall hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti. mbl.is/Golli.
Heilbrigðisstofnun Austurlands.
Heilbrigðisstofnun Austurlands. Af vef Ríkisendurskoðunar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert