Ungir drengir brutust inn á Selfossi

Lögreglustöðin á Selfossi.
Lögreglustöðin á Selfossi. mbl.is/GSH

Þrír drengir, níu til tólf ára, unnu talsvert tjón á verkstæði smíðaverktaka á Selfossi á mánudagskvöldið. Þeir höfðu brotið sér leið inn á verkstæðið og skemmt verkfæri, efni og fleira. Þeir settu í gang lyftara og óku honum á bifreið sem var inni á verkstæðinu.  Forráðamenn drengjanna voru kallaðir til ásamt barnaverndaryfirvöldum sem fóru yfir málið með lögreglu.  Ljóst er að  fjárhagslegt tjón er talsvert, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi.

Börn stálu talstöðvum

Um hvítasunnuhelgina bárust lögreglu tilkynningar um 11 þjófnaði.  Á Selfossi var brotist inn í tvö fjölbýlishús.  Par var handtekið og viðurkenndu innbrotið á annan staðinn.  Einnig var brotist inn í sumarbústaði í Bláskógabyggð og gám við íþróttavöllinn á Selfossi og úr honum stolið m.a. talstöðvum. Í því tilviki reyndust börn að verki.  Barnaverndaryfirvöld fengu tilkynningu um það og er unnið í málinu.

Fíkniefni í strætó

Lögreglumenn á Hvolsvelli fengu upplýsingar um að líklega væri fíkniefni að finna í strætó sem væri á leið að Landeyjahöfn. Við leit í vagninum var pakki sem í var krukka með hvítu dufti, um 30 grömm, sem gaf ábendingu við prófun að væri amfetamín. 

Við nánari rannsókn kom í ljós að kona í Vestmannaeyjum átti að fá pakkann. Enginn sem var í vagninum tengdist málinu. Efnið verður rannsakað nánar og málið rannsakað með tilliti til þess að það hafi verið ætlað til sölu.

Minni háttar líkamsárás átti sér stað utan við skemmtistaðinn Frón á Selfossi aðfaranótt sunnudags.  Deilur milli manna enduðu með því að einn þeirra var sleginn hnefahöggi í andlitið. 

Á ótryggðum bílaleigubíl

Lögreglumenn á Kirkjubæjarklaustri stöðvuðu erlendan ökumann sem ók of hratt á þjóðvegi 1 við Klaustur á mánudag.  Ökumaðurinn var á bílaleigubíl sem síðar kom í ljós að var ótryggður. Lögreglan segir að það sé mjög alvarlegt að verið sé að leigja bíla hér á landi sem eru ótryggðir.

„Bílvelta varð á laugardagskvöld á Laugarvatnsvegi við Laugardalshóla. Vitni sem komu skömmu síðar að vettvangi sáu til tveggja manna á stjákli við bílinn. Þegar lögreglan og sjúkralið kom á staðinn var annar maðurinn farinn af vettvangi en hinn á staðnum enda slasaður.  Hann var fluttur á slysadeild til frekari skoðunar.  Þegar hann var laus af slysadeildinni var hann handtekinn og yfirheyrður af lögreglu. Hinn maðurinn gaf sig fram síðar.  Hvorugur gekkst við akstrinum en þeir eru báðir grunaðir um ölvun.  Málið er í rannsókn,“ segir í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Um helgina voru 66 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur, þrír fyrir ölvunarakstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert