Venus kominn til Vopnafjarðar

Venus við bryggju á Vopnafirði í gær.
Venus við bryggju á Vopnafirði í gær. mbl.is/Jón Sigurðsson

Skipið Venus NS 150 kom til Vopnafjarðar að kvöldi hvítasunnudags. Lagðist það að bryggju morguninn eftir vegna tollskoðunar og tekið var á móti skipinu með viðhöfn.

„Skipsflautur voru þeyttar og það hefur varla farið fram hjá íbúum Vopnafjarðar að nýr kafli í atvinnusögu þessa fámenna sveitarfélags var að hefjast,“ segir í frétt HB Granda um heimkomu skipsins en þar er jafnframt vitnað í ræðu forstjóra HB Granda, Vilhjálm Vilhjálmssonar, við tilefnið. 

,,Venus NS er fyrsta skipið í stærsta nýsmíðaverkefni sem íslenskt sjávarútvegsfélag hefur ráðist í. Það hefur ekki gerst áður í útgerðarsögu Íslendinga að eitt félag hafi ráðist í jafn viðamikið verkefni í smíði nýrra skipa. Floti HB Granda þurfti vissulega á endurnýjun að halda. Flotinn sem í dag hefði verið um 33 ára gamall að meðaltali verður að óbreyttu innan við 8 ára að meðaltali árið 2017 þegar þessu verkefni lýkur,“ sagði Vilhjálmur.

Móttaka verður fyrir íbúa Vopnafjarðarhrepps og aðra gesti um borð í skipinu á morgun. Athöfnin hefst kl. 15:30 en að henni lokinni geta gestir gengið um skipið og skoðað það sem fyrir augu ber..

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert