Beitti konu sína ofbeldi skömmu eftir fæðingu

Manninum er gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig …
Manninum er gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili eiginkonu sinnar á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt er lagt bann við því að hann veiti henni eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana á annan hátt. mbl.isKristinn Ingvarsson

Nýbökuðum föður og eiginmanni hefur verið gert að sæta nálgunarbanni í hálft ár frá heimili eiginkonu sinnar og barna vegna ofbeldis sem hann hefur beitt hana. Meðal annars á fæðingardeildinni. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti nýverið úrskurð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þar að lútandi og Hæstiréttur hefur vísað kæru mannsins frá dómi þar sem kæran barst eftir að kærufrestur rann út.

Í greinargerð lögreglustjóra frá því í byrjun maí kemur fram að hjónin hafi eignast tvíburadætur þann 23. apríl sl. Sunnudaginn 3. maí sl. hafi foreldrar konunnar tilkynnt lögreglu að þau óttuðust um hana eftir að hafa rætt við hana í síma. Hún hafi verið á heimili tengdamóður sinnar ásamt eiginmanni og dætrum og hann hefði beitt konu sína ofbeldi.

Þrýsti á sauma eftir keisaraskurð og sló hana Lögregla hafi farið á vett­vang og rætt við konuna sem hafi lýst því að hún hefði legið með manninum upp í rúmi þar sem hann hafi haldið utan um hana. Hún hafi verið með sauma á mag­anum eftir keisara­skurð en hann hefði ýtt á saumana svo hana verkjaði. Hún hafi reiðst honum vegna þessa og viljað fara út af heimilinu og tekið dætur þeirra í fangið. Hún hafi ætlað að hringja og biðja um að hún yrði sótt en þá hafi hann rifið símann úr sam­bandi, öskrað á hana og rifið í hár hennar.

Meðan hún hafi haldið á dætrum þeirra hafi hann rifið hana niður í gólfið á hárinu og þar sem hún hafi legið, hafi hann slegið hana í andlitið með flötum lófa. Móðir hans hafi þá tekið stúlkurnar og maðurinn haldið áfram að rífa í hár konu sinnar og slegið hana ítrekað með flötum lófa í andlitið. Sjá hafi mátt áverka á konunni, bæði í andliti og á höndum. Maðurinn var handtekinn í kjöl­farið á vett­vangi.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur einnig fram að þegar lögregla hefði rætt við konuna hefði hún sagst óttast eiginmann sinn og að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem hann veitt­ist að henni.

Ógnaði henni og eyðilagði tölvu og síma hennar á fæðingardeildinni

Hún hafi skýrt frá tilviki þegar hann hefði ógnað henni á fæðingar­deild­inni eftir að dætur þeirra fæddust. Frásögn konunnar um það fái stoð í framburði hjúkr­unar­fræðings á Landspítalanum sem hafi verið á vakt umrætt sinn. Lögregla hafi einnig rætt við foreldra hennar sem hafi lýst því fyrir lögreglu að samband hjónanna  hefði einkennst af mikilli kúgun og ofbeldi og segðust þau óttast mjög um hana og dætur hennar þegar hún væri í kringum mann sinn. Fram hafi komið hjá foreldrum hennar að maðurinn hefði sent á systur eiginkonu sinnar mynd sem sýndi konunni í kynferðis­legum athöfum. Einnig lægju fyrir sms-samskipti hans við móður hennar þar sem hann viðurkenni háttsemi sína gagnvart konu sinni að hluta.

Móðir hans neitar að tjá sig við lögreglu um ofbeldið

Lögreglustjóri tekur fram að maðurinn neiti að hafa ráðist á konuna þann 3. maí sl. en geti ekki gefið skýringar á áverkum hennar. Hann kannist hins vegar við að hafa brotið síma og tölvu sem hún var með á fæðingardeildinni og að hafa sent systur hennar mynd af henni. Þá hafi lögreglan haft samband við móður hans en talið sé að hún hafi orðið vitni að atvikinu á heimili hennar  en hún neiti að tjá sig.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur loks fram að 6. maí sl. hafi lögreglu borist skila­boð sem maðurinn  hafi sent konu sinni sama dag, þrátt fyrir að hann vissi að hann sætti nálg­un­ar­banni gagnvart henni. Þau gögn sem lögregla hafi undir höndum beri með sér að konunni stafi mikil ógn af manninum og ljóst sé að hún hafi und­an­farið orðið fyrir miklu ónæði og vanlíðan af hans hálfu á sama tíma og hún sé að jafna sig eftir fæð­ingu tveggja barna og hefði þurft á öllum hans stuðningi að halda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert