Fær miskabætur vegna ólögmætrar handtöku

Hæstiréttur hefur dæmt konu á þrítugsaldri 400.000 krónur í miskabætur vegna ólögmætrar handtöku árið 2009. Taldi Hæstiréttur að ekki hefði legið fyrir lögmætt tilefni til handtöku konunnar og flutnings hennar á lögreglustöð.

Konan höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu í júní 2013 til heimtu miskabóta vegna þess að hún hefði verið handtekin tvívegis, án þess að lagaskilyrði hefðu verið til þess, auk þess sem handtakan hefði í bæði skiptin verið framkvæmd á óþarflega særandi og meiðandi hátt og hún sætt frelsissviptingu í lengri tíma en ástæða hefði verið til.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði í september sl. sýknaði ríkið af kröfum konunnar.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að konan hafði í fyrra sinnið verið handtekin 20. janúar 2009 og bar hún því við að hún hefði tekið þátt í friðsamlegum pólitískum mótmælum við Alþingishúsið í Reykjavík.

Hæstiréttur taldi að handtaka konunnar og annarra mótmælenda umrætt sinn hefði verið nauðsynleg þegar þeir neituðu að fara að fyrirmælum lögreglu, sem sett voru fram á grundvelli laga, og gerðu aðsúg að lögreglumönnum, sem hefðu haft það hlutverk að vernda stjórnarskrárbundna friðhelgi Alþingis sem var að störfum þennan dag.

Þá taldi rétturinn að frelsissvipting konunnar hefði ekki varað lengur en óhjákvæmilegt var og að ósannað væri að handtaka hennar hefði af hálfu lögreglu falið í sér meira harðræði eða vanvirðu en nauðsyn bar til vegna hinna óvenjulegu aðstæðna.

Í seinna skiptið var konan handtekin aðfaranótt 21. maí 2009 og kvaðst hún þá hafa án réttmæts tilefnis verið handtekin og færð á lögreglustöð þar sem hún var svipt frelsi sínu fram til hádegis þennan dag.

Hæstiréttur vísaði til þess að konan hefði verið sýknuð af ákæru um brot gegn almennum hegningarlögum vegna háttsemi hennar gagnvart lögreglumönnum sem voru við skyldustörf umrætt sinn og leiddi til handtökunnar. Taldi Hæstiréttur að ekki hefði legið fyrir lögmætt tilefni til handtöku konunnar og eftirfarandi flutnings hennar á lögreglustöð að því virtu að hún hefði ekki verið drukkin þegar atvik urðu og að leggja yrði til grundvallar að ósannað væri að hún hefði reynt að tálma því að lögreglumennirnir gegndu skyldustörfum sínum.

Vegna hinnar ólögmætu handtöku voru S dæmdar miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert