Hafnar ásökunum um óeðlileg afskipti ráðuneytisstjóra

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, fullyrðir í umsögn stofnunarinnar við frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum að Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri á fjármála- og efnahagsráðuneytinu, hafi með símtölum við sig dagana 30. júní og 2. júlí 2014 reynt að hlutast til um skipan stjórnarformanns fjármálafyrirtækis sem ríkið á eignarhlut í, og einnig reynt að fá stjórnarfundi í sama fyrirtæki frestað.

Frétt mbl.is: Óeðlileg afskipti ráðuneytis

Fjármálaráðuneytið vísar þessum ásökunum á bug. Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu segir að „um þessar staðhæfingar er að segja að þegar sameinig Sparisjóðs Bolungarvíkur við Sparisjóð Norðurlands stóð fyrir dyrum í júlí sl. var ljóst að óeining var um sameininguna og að hætta væri á að hún myndi ekki ganga eftir vegna óánægju heimamanna á Bolungarvík.

Fjármála- og efnahagsráðherra óskaði eftir því við ráðuneytisstjóra að þessum upplýsingum um óánægju heimamanna yrði komið á framfæri við Bankasýslu ríkisins þannig að leita mætti leiða til að tryggja samstöðu um sameiningu þessara tveggja sparisjóða í samræmi við markmið eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, þar sem segir að stuðla skuli að hagræðingu í fjármálakerfinu, og stefnu Bankasýslunnar.

Ræddi ráðuneytisstjóri í framhaldi af því við bæði þáv. formann stjórnar Bankasýslu ríkisins og forstjóra stofnunarinnar þar sem þessum áhyggjum og sjónarmiðum var komið á framfæri. Í þeim samtölum kom fram að e.t.v. væri möguleiki að seinka boðuðum stjórnarfundi hins sameinaða sparisjóðs ef það mætti verða til að tryggja að sátt gæti orðið um framhald málsins.

Ekki var af hálfu ráðuneytisins óskað eftir sérstökum trúnaði um þessi samtöl og því fer fjarri að þessi samtöl hafi falið í sér tilmæli af hálfu ráðuneytisins, enda er sérstaklega kveðið á um veitingu tilmæla frá ráðuneytinu til stofnunarinnar í lögum um Bankasýslu ríkisins nr. 88/2009, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.

Málið var rætt innan þáverandi stjórnar Bankasýslunnar, líkt og þáv. stjórn getur staðfest.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert