ASÍ hvetur KSÍ til að kjósa gegn Blatter

ASÍ skorar á KSÍ að greiða atkvæði gegn Sepp Blatter, …
ASÍ skorar á KSÍ að greiða atkvæði gegn Sepp Blatter, forseta FIFA. AFP

Alþýðusamband Íslands hvetur Knattspyrnusamband Íslands til að kjósa gegn Sepp Blatter í forsetakosningum alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA. Í yfirlýsingu frá ASÍ segir að framkoma FIFA í garð farandverkafólks undir stjórn Blatter hafi verið ömurleg og koma þurfi stjórn sambandsins frá.

Til stendur að kjósa til forseta FIFA á morgun þrátt fyrir umfangsmiklar aðgerðir bandaríska og svissneskra yfirvalda gegn stjórnendum sambandsins í gær en þeir eru sakaðir um að hafa þegið háar fjárhæðir í mútur um árabil.

Í yfirlýsingu sem ASÍ sendi frá sér í dag kemur fram að það geri þá kröfu til Knattspyrnusambands Íslands, sem hefur atkvæðisrétt í kosningunum, að það kjósi á ábyrgan hátt með mannréttindi og hagsmuni farandverkafólks í huga. Mikið hafi skort á að FIFA beiti sínu mikla afli í baráttunni gegn nútímaþrælahaldi sem nú sé staðreynd í Katar í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu 2022. Farandverkamenn sem þar vinna við uppbyggingu leikvanga og hótela starfi og búi við skelfilegar aðstæður. Áætlað sé að nokkur þúsund þeirra muni láta lífið við störf sín í Katar áður en boltinn byrjar að rúlla á HM 2022.

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC ) hafi sett af stað herferð til að forða því slysi að Blatter verði endurkjörinn, enda hafi framkoma FIFA undir hans stjórn gagnvart farandverkafólki sem byggt hefur umgjörð stórmóta FIFA síðastliðin ár hreint út sagt verið ömurleg.

„Knattspyrna er fögur íþrótt sem heillar milljónir manna um allan heim. Til að koma í veg fyrir að boltinn verði ataður blóði þegar flautað verður til leiks á HM 2022 er óhjákvæmilegt annað en bregðast við með afgerandi hætti. Komum núverandi stjórn FIFA frá í kosningunum á föstudag, leiðum mannréttindin til sigurs og tryggjum að knattspyrnumenn geti stoltir stundað íþrótt sína án þess að bera ábyrgð á mannréttindabrotum með óbeinum hætti,“ segir í yfirlýsingu ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert