Krabbameinssjúklingi vísað frá

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut Ómar Óskarsson

Verkfall hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti í gær. 2100 hjúkr­un­ar­fræðing­ar leggja niður störf, þar af um 1400 á Land­spít­al­an­um. Hluti þeirra eru áfram í vinnu til þess að tryggja ör­yggi sjúk­linga sam­kvæmt und­anþágulist­um.

Krabbameinssjúklingur sem leitaði læknishjálpar á bráðamóttöku Landspítalans í dag fær ekki að leggjast inn á krabbameinsdeild vegna ástandsins og mun líklega þurfa að vera áfram á bráðamóttöku. 

Sjúklingar of veikir til þess að vera útskrifaðir

Hjúkrunardeildarstjóri á krabbameinsdeild á Landspítalanum við Hringbraut segir ástandið alvarlegt.

„Við fengum heimild fyrir mönnun sem er í rauninni minni en venjuleg helgarmönnun hjá okkur,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir, hjúkrunardeildarstjóri á krabbameinsdeild 11E á Landspítalanum við Hringbraut. „Ég hef sótt um undanþágubeiðnir um næturvaktir fram að þessu og fengið jákvætt við því en var að fá núna höfnun á undanþágu fyrir kvöldvöktum sem þýðir það að ég þarf að loka fyrir innlagnir.

En til þess að kvöldvaktin fari ekki á hvolf þarf að útskrifa tvo sjúklinga sem ég sé ekki fram á að geta gert. Það eru sjúklingar sem eru einfaldlega of veikir til þess að fara heim.“

Fær ekki þá umönnun sem hann þarf

Að sögn Halldóru er búið að tilkynna krabbameinssjúkling til deildarinnar sem er nú á bráðamóttöku sjúkrahússins. „ Hann þyrfti að komast til okkar og við sögðum nei við því. Ég veit ekki hvort hann muni fara á aðra deild,  hvort að önnur sé betur búin en við,  en ég er ekki viss um það,“ segir Halldóra sem gerir ráð fyrir því að maðurinn þurfi að vera áfram á bráðamóttökunni. Þar fær hann ekki þá umönnun sem hann þarf enda eru þar ekki starfandi krabbameinshjúkrunarfræðingar eða krabbameinslæknar.

Halldóra segir að á deildinni séu venjulega fjórir hjúkrunarfræðingar á morgunvakt, þrír á kvöldvakt og tveir á næturvakt. Eftir að verkfallið hófst fékkst heimild fyrir þrjá á morgunvakt, tvo á kvöldvakt og einn á næturvakt.

„Það munar alltaf um einn,“ segir Halldóra. „Við erum með skráningakerfi sem flokkar sjúklinga eftir hversu mikla umönnun þeir þurfa. Á venjulegum degi erum við á réttu róli en þegar álagið er mikið erum við á „rauðu“ eins og  um helgar. Strax á fyrsta degi í gær vorum við á rauðu. Þetta gengur ekki svona mikið lengur.“

Sjúklingar eru smeykir

Aðspurð hvort hún sé áhyggjufull yfir því að með þessu ástandi sé öryggi sjúklinga í hættu svarar Halldóra því játandi. „Ég er með sérstakar áhyggjur yfir kvöldvaktinni ef ég fæ ekki auka heimild.“

Hún segir alla á sjúkrahúsinu áhyggjufulla yfir ástandinu, sérstaklega í  ljósi þess að ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni. „Á meðan staðan er þannig sér ekki fyrir endann á verkfallinu. Sjúklingarnir eru smeykir og starfsfólkið líka, engum líður vel í þessu ástandi.“

Halldóra Hálfdánardóttir er hjúkrunardeildarstjóri á krabbameinslækningadeild 11E
Halldóra Hálfdánardóttir er hjúkrunardeildarstjóri á krabbameinslækningadeild 11E
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert