Maí verður ekki minnst með hlýju

Það var ekki mjög hlýlegt um að litast þegar Jón …
Það var ekki mjög hlýlegt um að litast þegar Jón Guðbjörn Guðjónsson í Litlu-Árvík á Ströndum leit til veðurs í morgun. mbl.is/Jón Guðbjörn Guðjónsson

„Maí verður ekki minnst með hlýju,“sagði Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur Veðurstofu Íslands, svo skemmtilega þegar hann var spurður út í veðrið næstu daga. Ef fólk stefnir á útilegu um helgina þá ætti það að hugsa sig um tvisvar. Það verður kuldalegt í byrjun júní.

Trausti Jónsson, veðurfræðingur skrifaði á bloggvef sinn í gær: „Enn bólar ekkert á hlýju lofti. Hiti hefur þó hangið í meðallagi síðustu tíu ára á landinu í heild síðustu tíu til tólf daga - og út af fyrir sig varla hægt að kvarta undan því. En maímánuður í heild verður samt sá kaldasti um langt skeið - og næstu tveir til þrír dagar sennilega kaldari heldur en þeir síðustu. - Eitthvað hlýnar um helgina en ekki svo um muni.“

Viðrar illa fyrir ferðalög með húsbíla og tengivagna

Að sögn Björns Sævars verður áfram svalt í veðri en fyrir norðan og vestur á fjörðum hefur snjóað í morgun. Áfram er spáð norðanátt en á morgun verður hún hægari en í dag. Á laugardag er hins vegar von á lægð upp að landinu og henni fylgir vaxandi austanátt. ÁA laugardagskvöldið er spá 13-20 metrum á sekúndu og rigningu sunnantil og því ekkert húsbýla- né fellihýsaferðaveður. Þó má búast við að það hlýni heldur og fari jafnvel upp í 11-12 stig á suðvestanverðu landinu. Eins geta norðlendingar átt von á skammgóðum vermi með hlýnandi lofti.

Á sunnudag verður vindurinn norðaustlægari og hvassviðri (allt að 18 metrar á sekúndu) við Suðausturströndina og víðar. það verður rigning með suður- og suðausturströndinni en lítil sem engin úrkoma annars staðar. Hitinn fer hæst í 12 gráður á Suðvesturlandi en annars staðar verður kalt. 

Eftir helgi er von á norðaustanátt fram á miðvikudag og hitinn 1-5 stig víða á Norður- og Austurlandi en bjartviðri sunnanlands og hiti allt að 12 stigum. 

Á fimmtudag gæti farið að hlýna heldur með austanátt og rigningu víða um land þannig að júní fer ekki mjög vel af stað í veðurfarslegu tilliti.

Frá Litlu-Árvík á Ströndum snemma í morgun.
Frá Litlu-Árvík á Ströndum snemma í morgun. mbl.is/Jón Guðbjörn Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert