„Boltinn er hjá þeim“

„Ég varpa allri ábyrgð á ástandinu til viðsemjenda okkar, boltinn er hjá þeim.“

Þetta segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en félagið sleit viðræðum við samninganefnd ríkisins í dag eftir árangurslausan fund.

„Það var eiginlega ekki annað hægt en að slíta þessum viðræðum. Samninganefnd ríkisins hefur sýnt mjög lítinn vilja til að ganga til samninga við okkur,“ segir Ólafur og bætir við að ríkið hafi ekki enn lagt fram raunhæfar tillögur.  „Það var ljóst á fundinum í dag að það er enginn vilji til að leiðrétta laun okkar og gera þau sambærileg launum annarra háskólamenntaðra né heldur að draga úr kynbundnum launamun.“

Ólafur segir að þegar laun hefðbundinna karlastétta séu skoðuð í samanburði við laun hjúkrunarfræðinga sjáist töluverður munur á dagvinnulaunum. Það telji félagið nauðsynlegt að leiðrétta en að í dag hafi samninganefndin gefið skýr svör um að ekki standi til að taka skref í þá átt.

„Þeir komu með þetta tilboð  í dag sem hefði gert það að verkum að eftir fjögur ár væru byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga 359 þúsund og það er bara ekki eitthvað sem okkar félagsmenn munu samþykkja,“ segir Ólafur. Hann kveður ómögulegt að segja hvenær næsti fundur verður boðaður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert