Forsenda að aðrir hópar fái ekki hagstæðari samninga

Formaður VR ásamt öðrum samningsaðilum í Karphúsinu í dag.
Formaður VR ásamt öðrum samningsaðilum í Karphúsinu í dag. mbl.is/Golli

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir forsendu fyrir að kjarasamningurinn sem var undirritaður í dag vera að aðrir hópar fái ekki hagstæðari samninga en þá sem voru undirritaðir í dag. Eins og fram kom á mbl.is í dag eru forsendur samningsins mun fleiri, svo sem eins og þær breytingar sem gerðar verða á skattkerfinu og að það takist að ná fram raunverulegum kjarabótum, þannig að verðbólga éti ekki upp þær launahækkanir sem boðaðar eru í samningnum. Hér á myndunum að neðan er samningur LÍV og VR við SA í heild, en aðrir samningar eru að öllu verulega samhljóða þeim samningi.

Í 7. grein samningsins er farið yfir forsendur samningsins. Þar segir:

Kjarasamningur þessi hvílir á þremur meginforsendum sem eru að kaupmáttur launa aukist á samningstímanum, að launastefna hans verði stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamngagerð og að fullar efndir verði á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samninginn.

Fari svo að einhver af ofangreindum forsendum standist ekki skal kalla saman sameiginlegan fund samninganefnda ofangreindra samningsaðila og framkvæmdastjórnar SA sem leita skulu samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiða samningsins, treysta forsendur hans og vinna að því að hann haldi gildi sínu.

Á vef VR segir að lægstu launataxtar VR hækka um 31,1% eða kr. 64.208 á samningstímanum. Lágmarkstekjur verða 300 þúsund krónur á mánuði frá maí árið 2018.

Launaþróun á samningstímanum

Launahækkun 1. maí 2015 

  • Launataxtar hækka um kr. 25.000. 
  • Byrjunarlaun skv. öllum launatöxtum VR hækka að auki um kr. 3.400 
  • Launaþróunartrygging, á við um aðra en þá sem taka laun skv. launatöxtum. Grunnhækkun launa við gildistöku samningsins er 7,2% fyrir starfsmann sem er með 300.000 kr. laun eða lægri og hóf störf hjá launagreiðanda fyrir 1. febrúar 2014. Grunnhækkun launa starfsmanns sem er með hærri laun en 300.000 kr. fer stiglækkandi þannig að hún lækkar í jöfnum skrefum frá 300.000 kr. niður í 3,2% hjá starfsmanni með 750.000 kr. í laun. Hafi starfsmaður fengið hækkun eftir 2. febrúar 2014 dregst hún frá grunnhækkuninni.
    Sjá nánar hér töflu yfir prósentuhækkanir eftir launum

    Dæmi um launaþróunartryggingu
    :
    Starfsmaður er með kr. 500 þúsund í mánaðarlaun. Hann hóf störf hjá atvinnurekanda fyrir 1. febrúar 2014 og hefur EKKI fengið launahækkun frá 2. febrúar 2014. Hann fær 5,4% hækkun skv. launaþróunartryggingu. Hafi hann fengið hækkanir á tímabilinu eru þær dregnar frá, en honum er tryggð að lágmarki 3,2% hækkun. Starfsmaður sem hóf störf frá 1. febrúar 2014 til loka desember 2014 fær 3,2%. 

Launahækkun 1. maí 2016 

  • Launaþróunartrygging er 5,5%, að lágmarki kr. 15 þúsund, fyrir starfsmann sem hefur verið í starfi hjá sama launagreiðanda frá 1. maí 2015. 

Launahækkun 1. maí 2017 

  • Launataxtar hækka um 4,5% 
  • Byrjunarlaun skv. launataxta hækka að auki um kr. 1.700 
  • Almenn hækkun er 3% 

Launahækkun 1. maí 2018 

  • Launataxtar hækka um 3% 
  • Almenn hækkun er 2% 

LÁGMARKSTEKJUR FYRIR FULLT STARF VERÐA KR. 300 ÞÚSUND 

Lágmarkslaun með tekjutryggingu hækka í 245 þúsund krónur við undirskrift samningsins en þau eru í dag 214 þúsund krónur á mánuði. Í maí árið 2018 verða lágmarkstekjur 300 þúsund krónur á mánuði. Miðað er við lágmarkstekjur á mánuði fyrir fullt starf. 

Nánari upplýsingar er að finna á vef VR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert