„Stærðfræði er mjög skemmtileg“

Kristín Björg segist ekki hafa gert ráð fyrir að dúxa.
Kristín Björg segist ekki hafa gert ráð fyrir að dúxa.

Kristín Björg Bergþórsdóttir er dúx Menntaskólans í Reykjavík með einkunnina 9,56. Hún sagðist ekki hafa búast við því. „Nei, ég vissi það ekki og var ekki alveg búin að reikna þetta út,“ sagði Kristín, sem er dóttir Bergþórs Jóhannssonar og Ásdísar Aðalsteinsdóttur, í samtali við mbl.is.

Hún sagðist ekki gera neitt sérstakt til að standa sig svona vel í skólanum. „Ég hef bara gaman af því sem ég geri. Mér finnst skemmtilegt að læra og skipulegg mig vel.“ Kristín var á eðlisfræðibraut 1, árin fjögur í MR.

Sumarið hjá nýdúxnum verður blanda af gamni og alvöru. „Fyrst fer ég til Flórída í frí og síðar í sumar fer ég á Ólympíuleikana í eðlisfræði en þeir fara fram í Mumbai á Indlandi. Það er mjög spennandi og æfingar fyrir þá ferð hefjast 8. júní.“

Kristín ætlar að halda áfram að læra það sem henni þykir skemmtilegt, stærðfræði. „Ég ætla í stærðfræði í haust í Háskóla Íslands, fjármálastærðfræði. Stærðfræði er mjög skemmtileg.“ Árin í MR voru frábær. „Mér fannst það æði og ég hafði góða kennara en þar stóðu Linda enskukennari og Birgir stærðfræðikennari upp úr.“ Kristín sagðist aðspurð vita hvað hún ætlar að starfa við þegar námi lýkur. „Mig langar að verða stærðfræðingur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert