Munaðarlaus selskópur í Slakka

Kópurinn fékk mjólk og lýsi í Slakka.
Kópurinn fékk mjólk og lýsi í Slakka. Ljósmynd/Dýragarðurinn Slakki

Nýjasti íbúi dýragarðsins í Slakka er líklegur til að gleðja jafnt unga sem aldna í náinni framtíð en í dag flutti þar inn selskópur. Þó svo að kópurinn sé heppinn með nýja heimilið er vera hans í garðinum ekki komin til af góðu en hann varð viðskila við móður sína í dag.

Kópurinn fannst í Traustholtshólma, neðst í Þjórsá, af ábúandanum í eynni. Leitað var dyrum og dyngjum að móður kópsins, sem var hvergi sjáanleg. Sú skýring sem talin er líklegust af viðmælendum mbl.is er sú að Landsvirkjun hafi aukið streymi í ánna þar sem yfirborð hennar hækkaði skyndilega. Selirnir halda sig á skerjum utan við ána og gæti skyndileg hækkun yfirborðs hennar hafa orðið til þess að kópurinn týndist úr hópnum. 

Kópurinn í Traustholtshólma þar sem hann fannst.
Kópurinn í Traustholtshólma þar sem hann fannst.

Eftir að ljóst var að ekki yrði unnt að koma kópnum aftur í faðm fjölskyldu sinnar ákvað ábúandinn að fara með hann í dýragarðinn Slakka í Laugarási.

„Þeir reyndu að leita að mömmunni og fleiri selum en þeir höfðu allir farið niður og þetta grey var bara eftir,“ segir Helgi Sveinbjörnsson, starfsmaður í Slakka. „Við myndum aldrei fara að taka sel frá mömmunni til að taka í garðinn, það er ekki að ræða það. En ef það er eitthvað svona þar sem málið snýst um að bjarga dýrinu er það auðvitað yndislegt.“

Kópurinn var ferjaður upp á bát.
Kópurinn var ferjaður upp á bát.

Helgi segir mikla pressu fylgja því að ala upp munaðarlaust dýr, enda sé mikilvægt að vel takist til svo kópurinn geti lifað af þegar honum er sleppt aftur út í náttúruna. Starfsfólk garðsins sé þó staðráðið í að gera sitt besta. „Við erum með afmarkaða tjörn og tvær endur, það er frábær aðsta fyrir hann og við erum búin að vera að reyna að koma ofan í hann mjólk og lýsi í kvöld,“ segir Helgi. 

Rænt í skjóli nætur

Slakki hefur tvisvar sinnum áður tekið á móti munaðarlausum selskópum. Í fyrra skiptið tókst vel til og var dýrinu sleppt aftur út í nátturúna þegar það hafði aldur og burði til en í það seinna var kópnum rænt í skjóli nætur. 

„Það skrítna er að við fengum aldrei neinar kvartanir, ekki frá náttúruverndarsinnum eða neinum. Samt fór þetta svona. Það hafði verið bakkað bíl að girðingunni og svo heyrðum við aldrei neitt meira af honum,“ segir Helgi. „Auðvitað hefur honum verið sleppt en hann var bara ekki tilbúinn í það.“

Kópurinn vakti eðlilega mikla athygli í Slakka.
Kópurinn vakti eðlilega mikla athygli í Slakka.

Helgi segir að sérfræðingar hafi ráðlagt starfsfólki dýragarðsins um eldi fyrri kópanna og að einnig verði leitað ráða hjá sérfræðingum í þetta skipti.

„Ef þetta verður eins og með þann sem var hjá okkur fyrir 13 árum þá var okkur ráðlagt að gefa honum, fita og láta stækka fram í nóvember. Þeir eru ekki tilbúnir fyrr að fara út í náttúruna og að sjálfsögðu reynum við að sleppa honum þá,“ segir Helgi. 

Thessi fekk far í dyragardinn ur eyjunni, hafdi skolast burt fra mömmu sinni og var ordinn mjog svangur

Posted by Svanur Thor Bjarnason on Saturday, May 30, 2015

Ekki er enn ljóst af hvaða kyni kópurinn er en ákveðið hefur verið að nefna hann fái annað hvort nafnið Ásgeir eða Dýrleif eftir síðustu ábúendunum í Traustholtshólma.

Augu selsins bræða hverja sál.
Augu selsins bræða hverja sál. Ljósmynd/Dýragarðurinn Slakki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert