Unga kynslóðin frekar bjartsýn á stöðu íslenskunnar

Bjarni Ármann Atlason, nemandi í Verslunarskóla Íslands.
Bjarni Ármann Atlason, nemandi í Verslunarskóla Íslands. mbl.is/Eggert

Það er gömul saga og ný að íslensk tunga sé í hættu stödd, einkum vegna erlendra áhrifa. Langfæstir nemendur í 3. bekk Verzlunarskóla Íslands taka þó undir þær gagnrýnisraddir. Þetta kom fram á íslenskuprófi sem þau þreyttu í vor.

Eftirfarandi spurning var lögð fyrir þau: Nemandi spyr félaga sinn í kennslustund þar sem hann er að skrifa ritgerð um Hallgerði langbrók: „Hvað er aftur nickname á íslensku?“ Kennarinn spyr sig: Hefur enskan yfirhöndina þegar kemur að því að velja á milli hennar og móðurmálsins? Ritgerð: Hvað er átt við þegar sagt er að tungumál sé í útrýmingarhættu? Ræðið framtíð tungumála, sem fáir tala, í heimi þar sem hnattræn áhrif fara vaxandi. Er íslensk tunga í hættu stödd að ykkar mati?

Það skal tekið fram að nemandi spurði um „nickname“ í íslenskutíma. Af þeim nemendum sem svöruðu spurningunni töldu 94 þeirra íslenskuna ekki í hættu eða 62% á móti 57 sem töldu hana vera í hættu eða 38%.

Dugleg að viðhalda íslenskunni

„Mér finnst hún ekki vera í útrýmingarhættu af því að við höfum viðhaldið henni svo vel. Fyrir mörgum árum voru mikil áhrif frá dönskunni og af því að Danir neyddu okkur ekki til að taka upp dönsku þá fór það ekki verr en það gerði. Núna, með aukinni hnattvæðingu og tengslum milli ríkja, er komin ný ógn sem er slettur og málvillur sem koma úr enskunni. Ef við tökum upp málstefnu og pössum upp á að smíða nýyrði í stað þess að nota slettur ætti enskan ekki að hafa of mikil áhrif,“ segir Bjarni Ármann Atlason, einn þeirra sem fengu fullt hús stiga fyrir ritgerðarspurninguna.

Bjarni Ármann er fullur bjartsýni á að íslenskan muni halda velli því þjóðin hefur sýnt að hún stendur sig betur í að viðhalda tungumálinu en svartsýnustu menn hafa talið. Í því samhengi nefnir hann danska málfræðinginn Rasmus Rask sem spáði því í upphafi 19. aldar að íslenska yrði dauð árið 2015.

Bjarni segist sjálfur hafa gaman af hugleiðingum um tungumálið. „Já, ég reyni það. Á veturna er mikið álag að lesa fyrir skólann en í sumar er tilvalið að lesa, en það er mikilvægt til að rækta orðaforðann,“ segir hann aðspurður hvort hann lesi mikið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert