Lætur lesblinduna ekki stöðva sig

Súsanna ætlar að verða dýralæknir.
Súsanna ætlar að verða dýralæknir. Mynd úr einkasafni

Súsanna Katarína Sand Guðmundsdóttir er dúx Framhaldsskólans í Mosfellsbæ með einkunnina 8,56. „Þetta gekk bara mjög vel hjá mér og ég ætlaði alltaf að láta þetta ganga vel,“ sagði Súsanna, sem er dóttir Súsönnu Sand og Guðmundar Björgvinssonar, í samtali við mbl.is.

Hún þurfti að hafa talsvert fyrir náminu. „Ég er lesblind þannig að ég þurfti að leggja talsvert á mig og þurfti að lesa textana oftar en einu sinni. Mín lesblinda lýsir sér þannig að stundum missi ég úr nokkur orð í texta.“

Henni þótti frábært að vera nemandi í svona fámennum framhaldsskóla en 18 nemendur útskrifuðust úr skólanum og nemendur voru alls 360. „Mér fannst æðislegt að vera í svona litlum skóla. Þetta var bara ótrúlega gaman og maður þekkir kennarana rosalega vel og það eru allir mjög nánir og þetta er eins og stór fjölskylda.“

Súsanna sagðist aðspurð hafa nóg að gera í sumar og haust. „Í sumar ætla ég að sjá um hestana mína og vinna með því að þjálfa hesta fyrir aðra. Ég er mjög mikil hestamanneskja og hef verið að keppa og gengið mjög vel.“ Í haust er stefnan sett á frekara nám. „Vonandi kemst ég inn í háskóla. Ég ætla að reyna að komast inn í háskóla í Noregi eða Danmörku þar sem ég get lært dýralækningar. Ég ætla að verða dýralæknir, hestadýralæknir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert