Mikill viðbúnaður en íbúðin tóm

Sérsveit ríkislögreglustjóra réðist inn í íbúð í Hlíðarhjalla í Kópavogi á níunda tímanum í dag, þar sem grunur lék á að byssumaður hefðist við. Íbúðin reyndist mannlaus, en lagt var hald á skotvopn og skotfæri.

Samkvæmt heimildum mbl.is var um að ræða íbúð á jarðhæð.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sagði í samtali við blaðamann mbl.is á vettvangi að rannsókn málsins væri enn í gangi en vildi ekki tjá sig um það hvort leit væri hafin að byssumanninum.

Sérsveitin var kölluð til um klukkan þrjú í dag eftir að lögreglu bárust þrjár tilkynningar um skothvelli í íbúð í fjölbýlishúsi í Hlíðarhjalla. Stóru svæði umhverfis bygginguna var lokað og nærliggjandi götum sömuleiðis.

Viðbúnaður var mikill á vettvangi. Brynvarður bíll, róbóti og óeirðarskildir voru meðal þess búnaðar sem sérsveitin hafði með sér en skyttur sérsveitarinnar tóku sér stöðu bæði á túni fyrir framan húsið og ofan á bifreið. Óvíst er hvort um eina skyttu var að ræða, sem breytti um stöðu, eða hvort þær voru fleiri.

Umsátrið stóð í sex tíma. Nokkur fjöldi fólks safnaðist saman í nágrenninu til að fylgjast með þróun mála og þurfti lögregla að fylgjast með því að lokunarbann væri virt.

Rétt fyrir klukkan 20 var stigagangurinn rýmdur þegar öruggt tækifæri gafst, en tveir fullorðnir og eitt barn voru enn inni. Fólkið var aðstoðað í skjól.

Blaðamaður mbl.is á vettvangi ræddi við nokkra íbúa hverfisins sem sögðust ekki hafa heyrt byssuhvelli, en sögðu ástandið óþægilegt og ekki síður að vita ekki hvenær það yrði yfirstaðið.

Rétt eftir klukkan 21 staðfesti slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu við mbl.is að tveir sjúkrabílar sem sendir voru á vettvang fyrr um daginn hefðu verið kallaðir til baka. Skömmu síðar barst tilkynnig frá lögreglu þar sem sagt var frá því að aðgerðum væri að ljúka.

mbl.is setti sig í kjölfarið í samband við lögreglu og fékk þær upplýsingar að náðst hefði í eiganda íbúðarinnar, en hann hefði ekki dvalið í henni að undanförnu. Hún vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Blaðamaður mbl.is á vettvangi sagðist hafa séð lögreglumenn rýna í umhverfi fjölbýlishússins eftir að aðgerðum lauk. Í hvaða tilgangi er óvíst en ljósmyndari mbl.is myndaði högl í girðingu, tré og palli við íbúðina.

Íbúum fjölbýlishússins var heimilað að snúa aftur heim í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert