Í þungamiðju hörmungaratburða

Ingólfur Axelsson við Everest.
Ingólfur Axelsson við Everest.

„Feður þessara barna tóku þátt í að marka líf mitt og ég vil bara endurgjalda greiðann,“ segir Ingólfur Ragnar Axelsson, Everestfari, sem stendur fyrir bingói í Stúdentakjallaranum á morgun til styrktar námssjóði fyrir börn þriggja Nepala sem létust í jarðskjálfta þann 25. apríl síðastliðinn. Alls létust um 9 þúsund manns og 23 þúsund slösuðust í Nepal þann örlagaríka dag. 

„Eftir að heim var komið tók við barátta við að komast inn í daglegt líf og amstur sem að öllu jöfnu er áreynslulaust. Ég flaug frá Nepal þann 6. maí síðastliðinn, sama dag og nokkrir smáir skjálftar urðu. Um borð í flugvél á leið til Íslands í 35 þúsund feta hæð, eða um sömu hæð og Mount Everest, þá komst þakklæti ekki að í huga mér heldur leið mér hræðilega. Samviskubitið yfir að vera á leið heim í öryggi og öll þau þægindi sem við búum við var yfirsterkara gleðinni við að vera á lífi,“ segir Ingólfur. hann segir náttúruhamfarirnar í Nepal leiða af sér óteljandi vandamál. 

Tilviljun ein réð örlögum fólks

„Við klifrararnir á Everest vorumbara agnarsmár hluti af heildinni. Það var eingöngu fyrir tilviljun að þeir fimm leiðangrar sem vers urðu úti í grunnbúðunum voru allir með klifrarana uppi í hlíðumfjallsins. Ef þessir 160 klifrarar sem staddir voru í fjöllunum hefðu verið í grunnbúðunum, er ljóst að dánartölur hefðu margfaldast þar.“

Ingólfur segir frá upplifun sinni af hamförunum. „Mín upplifun var sú að ég stóð fyrir utan tjaldið mitt í búðum 1 og finn jörðina byrja að hristast. Ég hélt þá fyrst að sprunga væri a opnast fyrir neðan mig en síðan var augljóst að um jarðskjálfta var að ræða. Risastóran jarðskjálfta.“

„Undirbúið ykkur undir snjóflóð“

„Rob Cassidy, okkar reyndasti fjallamaður, tók þá einstakt frumkvæði og öskraði á menn að klæða sig í skó og gera sig klára í að verða undir snjóflóði. Það var á þeirri stundu sem ég lokaði augunum snögglega og fór með stutta bæn þar sem ég þakkaði fyrir mig í þessu lífi. Styrkurinn sem braust fram þegar snjóflóðin komu æðandi í átt að mér niður brattar hlíðar vestur-axlar Everest kom úr dýpsta kjarna mínum og kallast einfaldlega lífsvilji. Að standa uppi á skriðjökli á ullarnærfötunum í 6.400 metra hæð, búandi mig undir snjóflóð kallar fram öll mannleg viðbrögð en ég ákvað meðvitað á þessari stundu að ég skyldi berjast þangað til ég væri kominn niður af fjallinu, hvað sem myndi ganga á,“ segi Ingólfur.

Allir fengu stutt símtal heim

Hann lýsir svo þeirri upplifun að horfa á snjóflóðin nálgast úr öllum áttum. „Snjóflóðin komu úr öllum áttum en hurfu ofan í risastórar sprungur auk þess sem uppistaða þeirra reyndist púðursnjór, svo að allir klifrarar úr búðum 1 og 2 sluppu. Fregnir bárust fljótt úr grunnbúðunum og þá varð okkur öllum fyrst ljós umfang hamfaranna. Við höfðum einn gervihnattasíma fyrir 12 manns og fékk hver hálfa mínútu til að hringja í nákominn ættingja, svo hægt væri að spara batterí símans. Ég þurfti að draga andann djúpt til að halda aftur af tilfinningum mínum.“

Ingólfur lýsir símtalinu sem hann átti við móður sína þennan örlagaríka dag. Hann hringdi fyrst í farsíma en fékk ekkert svar. Því næst hringdi hann í heimasíma foreldra sinna. Móðir hans svaraði og var augljóst að hún var að vakna. 

Móðir Ingólfs: Halló?

Ingólfur: Hæ mamma, ég vildi bara hringja í þig og láta þig vita að það varð jarðskjálfi en það er allt ílagi með mig. Ég er núna í búðum 1 og þeir sækja okkur eftir 3 daga á þyrlu.

Móðir Ingólfs: Ha? Er allt í lagi?

Ingólfur: Já, kíktu á fréttirnar. Það varð jarðskjálfti, ég hef það gott svo ekki hafa áhyggjur af mér. Ég verð að hætta, viltu setja á Facebook að ég og Vilborg erum óhult.

Móðir Ingólfs: Já ég geri það.

Ingólfur: Ég elska þig mamma, bless, verð að hætta.

Móðir Ingólfs: Elska þig Ingó minn.

Margir leiðangursmenn þurftu mikla umönnun

Ingólfur segir leiðangursmenn hafa brugðist misjafnlega við. „Ég gaf sjálfum mér aldrei færi á að sýna veikleika, gráta eða syrgja þá sem létust, ég þurfti bara að koma mér í gegnum þessar aðstæður sem ég var í á þessum tíma. Leiðangursmenn brugðust mjög misjafnlega við og það var ljóst að sumir þurftu mikla umönnun til að komast í gegnum þessa daga sem við áttum eftir að vera á fjallinu. Morguninn þegar við flugum með þyrlu niður úr búðum 1 þá kláraðist maturinn og gasið var búið. Var þá ekki nokkur leið að klifra niður, þannig að ég hefði alls ekki getað eða viljað vera lengur uppi í fjallshlíðinni.“

Nepalir sjá fegurðina í einfaldleikanum

Ingólfur lýsir því hvernig tilfinningin var að lenda annað árið í röð í þungamiðju hörmungaratburða. „Á síðasta ári vorumvið á leið upp í ísfjallið eftir nokkrar klukkustundir þegar snjóflóð skall á Khumbu Ísfjallinu með þeim afleiðingum að 16 Nepalar létu lífið. Þetta var því annað árið í röð þar sem ég var staddur í hringjamiðju hörmungaratburða. Það er mannlegt að velta því fyrir sér af hverju ég var svo heppinn að sleppa lifandi, ekki einu sinni heldur tvisvar.“

Hann segist fjöllin fá sig til að sjá fegurðina í einfaldleikanum. „Ég hugsa stanslaust um Nepal, vakna, skoða þaðan myndir, og sofna hugsandi um hvort það sé rigning í Namche bazar eða Katmandú. Allir sem hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að heimsækja Nepal þekkja þá tilfinningu að upplifa eitthvað svo sterkt að það breytir okkar dýpsta kjarna.“

„Himalayafjöllin gera okkur agnarsmá en þó á þann hátt að við sjáum betur fegurðina í einfaldleikanum. Þetta er eitthvað sem Nepalar hafa tamið sér og það er mér huggun að sama hvað á bjátar, munu þeir halda áfram að sjá fegurðina og með tímanum brosa í gegnum hamfaragrímuna sem situr á hverju andliti.“

Vill endurgjalda vinskap

Þegar heim var komið fór Ingólfur að velta fyrir sér hvernig hann geti gefið tilbaka til landsins þar sem hann hefur myndað vinskap og tengsl við fólkið. „Núna í skugga hörmungaratburðanna langar mig til þess að gefa tilbaka til þessarar þjóðar sem hefur gefið mér svo mikið.“

Er stefnan sett á að safna 750 þúsund krónum í námssjóð fyrir átta börn þeirra þriggja Nepala sem létust þann 25. apríl síðastliðinn í leiðangri Ingólfs. Hann segir markmið sjóðsins vera að gefa börnunum sannanlegt tækifæri til að stunda nám án utanaðkomandi þrýstings á að þau fari að stunda vinnu af einhverju tagi. Hann segir feður barnanna hafa markað líf sitt og vill endurgjalda greiðann. „Lokamarkmiðið er að börnin hafi val um hvað þau vilja gera eftir að námi lýkur.“ Stefnan sé svo sett á að fylgja verkefninu eftir næstu árin.

Sjá Facebookviðburð bingósins

Tilviljun ein réð örlögum fjallgöngumanna á Everest daginn sem jarðskjálftinn …
Tilviljun ein réð örlögum fjallgöngumanna á Everest daginn sem jarðskjálftinn varð.
Ingólfur Axelsson blessun við athöfn í grunnbúðum Everest í upphafi …
Ingólfur Axelsson blessun við athöfn í grunnbúðum Everest í upphafi leiðangursins. Af Facebook-síðu Ingólfs
Pasang Temba - „Hann vann sem matreiðslumaður í búðum tvö …
Pasang Temba - „Hann vann sem matreiðslumaður í búðum tvö og var þetta hans 19 ár á fjallinu. Pasang hefur sannarlega snert líf margra klifrara og ég er vongóður um að sem flestir af þeim sem hafa klifið með honum leggi hönd á plóg til að aðstoða fjölskyldu hans. Hann lætur eftir sig tvö börn auk þess sem að húsið hans gjöreyðilagðist." Mynd/Ingólfur Ragnar Axelsson
Kumar - Háfjallaklifrari sem aðstoðaði í eldhúsinu. Hann smalaði Jökunum …
Kumar - Háfjallaklifrari sem aðstoðaði í eldhúsinu. Hann smalaði Jökunum og sauð vatn upp á fjallinu. Þeir sem þekkja hann segja að hann hafi getað og viljað gera allt sem þarf að gera í svona leiðöngrum. Kumar lætur eftir sig 4 börn. Mynd/Ingólfur Ragnar Axelsson
Tenzing - „Hann vann við að aðstoða í grunnbúðum og …
Tenzing - „Hann vann við að aðstoða í grunnbúðum og einnig sem klifursherpi. Hann er sá sem ég var mest með, það voru forréttindi að fá að eyða tíma með honum og mun ég sakna hans. Ótrúlegur hlátur og breitt bros var smitandi þannig að allir voru með í gleðinni. Tenzing lætur eftir sig 2 börn." Mynd/Ingólfur Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert